„Kominn tími á nýja stefnu“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, er einn þeirra fjölmörgu sem ritað hafa nafn sitt við alþjóðlegt ákall til Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, þess efnis að refsistefna í fíkniefnamálum verði hugsuð upp á nýtt.

„Mér finnst mjög mikilvægt að taka þátt í þessu enda tel ég fulla ástæðu til að endurskoða þessi mál,“ segir Árni Páll í samtali við mbl.is og bendir á að ekki hafi reynst árangursríkt til þessa að draga úr neyslu fíkniefna eða koma fíklum til aðstoðar með núverandi refsistefnu. Líta eigi á fíkniefnaneyslu sem velferðar- og heilbrigðismál fremur en sem dómsmál.

„Vesturlönd hafa eytt hlutfallslega miklu meira fé í að halda niðri þessum viðskiptum í stað þess að horfa á þann möguleika að mæta fólki. Við höfum því fyllt fangelsin en ekki hugsað um að þjónusta fíkla sem í reynd eru í miklum vanda vegna fíkniefnaneyslu sinnar,“ segir Árni Páll.

Samfylkingin hefur nú þegar samþykkt stefnu um refsileysi neysluskammta og telur Árni Páll samfélagið nú komið að ákveðnum endapunkti þegar kemur að glæpavæðingu fíkniefnaneyslu. „Við þurfum að hugsa þetta mál alveg upp á nýtt - það er kominn tími á nýja stefnu,“ segir hann.

Á listanum má einnig finna nöfn fyrrverandi forseta Mexíkó, Kólumbíu, Brasilíu, Síle, Nígeríu, Grænhöfðaeyja og Hollands. Þá eru þar einnig lögmenn, dómarar, lögreglustjórar, saksóknarar, fræðimenn, og trúarleiðtogar svo einhverjir séu nefndir.

Listann má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert