Vilja láta bera Menningarsetrið út

Karim Askari, fyrrum formaður Menningarsetursins og núverandi framkvæmdastjóri Stofnunar múslima …
Karim Askari, fyrrum formaður Menningarsetursins og núverandi framkvæmdastjóri Stofnunar múslima kemur til héraðsdóms ásamt lögmanni félagsins, Gísla Kr.

Í dag fór fram aðalmeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Stofnunar múslima á Íslandi gegn Menningarsetri múslima á Íslandi. Stofnunin er eigandi Ýmishússins svonefnda, að Skógarhlíð 20, ‏‏‏‏‏‏‏‏‏‏‏‏‏‏þar sem Menningarsetrið hefur verið til húsa síðustu ár. Mikið ósætti hefur verið milli félaganna tveggja sem áður áttu í samstarfi og varð almenningur fyrst var við það í kjölfar fjárveitinga Sádi Arabíu til Stofnunar múslima.

Fram kom fyrir héraðsdómi í dag að nú sé svo komið að Stofnunin líti á leiðtoga Menningarsetursins sem einskonar hústökufólk og fer hún því fram á að Menningarsetrið verði borið út úr fasteigninni.

Menningarsetrið fer fram á að kröfum Stofnunarinnar verði hafnað. Sagði lögmaður setursins umbjóðanda sinn vera með gildan, þinglýstan leigusamning við gerðarbeiðanda sem aftur á móti hafi falsað dagsetningu á öðrum meintum samningi sem hafi ekkert lagalegt gildi.

Saka Karim um fölsun

Fyrir dómi voru lögð tvö skjöl sem bæði eru sögð samningar um húsnæðið, annað dagsett þann 20. desember 2012 og hitt daginn eftir, 21. desember. Lögmaður Stofnunarinnar, Gísli Kr. Björnsson, sagði fyrrnefnda skjalið hafa verið drög að leigusamningi og að sá seinni væri sá rétti.

Lögmaður Menningarsetursins, Oddgeir Einarsson, sagði fyrrnefnda skjalið hinsvegar gildan samning og að umbjóðendur sínir hefðu hvorki séð né heyrt vísað til síðari samningsins fyrr en árið 2014, tveimur mánuðum eftir að Karim Askari, þáverandi formanni félagsins og núverandi framkvæmdastjóra Stofnunar múslima, var settur af.

Oddgeir sagði augljóst að undirskrift stjórnarformanns Stofnunar múslima, Hus­sein Al-Daoudi, sem búsettur er í Svíþjóð, á hinum meinta samningi frá 21. desember 2012 hafi verið fölsuð. Það sæist á öðrum undirskriftum stjórnarformannsins sem lagðar hefðu verið fyrir fram. Sagði hann umbjóðanda sinn telja að samningurinn hafi verið búinn til af Karim Askari eftir að tíma hans sem forsvarsmanni félagsins lauk til þess að tryggja stöðu Stofnunarinnar. Enginn rithandarsérfræðingur var kallaður fyrir dóminn og sagði Oddgeir það helgast af því að ekki tíðkaðist, samkvæmt lögum, að fá matsaðila í málum sem þessum, hinsvegar væri fölsunin augljós.

 Þessu mótmælti Gísli og sagði ekkert koma í veg fyrir að varnaraðili kallaði sérfræðing til vitnis. Án slíks mats félli ásökunin um sjálfa sig. Sagði hann ásakanir Menningarsetursins um fölsun „eingöngu spekúlasjónir og hugrenningar núverandi stjórnarmanns gerðarþola“. Þær væru „reyfarakenndar“, fyrir þeim væru engar sannanir og að ætlun varnaraðila væri greinilega aðeins að „þyrla ryki í augu dómara“.

Ekki skipti máli hvort ólíklegt væri að þáverandi stjórn gerðarbeiðanda hafi skipt um skoðun á einum degi eins og sagði í greinargerð gerðarþola, skipt hafi verið um skoðun og varnaraðili hefði enga sönnun fyrir öðru enda hafi núverandi stjórn hans ekki verið aðili að málinu á þeim tíma..

„Málið er mjög einfalt. Þetta eru tvö félög sem eiga ekki samleið,“ sagði Gísli. Annað félagið ætti fasteign sem það keypti dýrum dómum og hinir væru eins og hústökufólk.

Ýmishúsið í Skógarhlíð.
Ýmishúsið í Skógarhlíð. mbl.is/Árni Sæberg.

„Fer ekki saman hljóð og mynd“

Fyrri samningnum, dagsettum 20. desember 2012, var þinglýst 2015, af stjórn Menningarsetursins. Samkvæmt honum er leiga félagsins á fasteigninni 10 þúsund krónur á mánuði. Samningurinn nær til alls húsnæðisins og sagði Gísli það einmitt ástæðuna fyrir því að gerður hefði verið annar samningur ann 21. desember. Samkvæmt þeim meinta samningi borgar Menningarsetrið enga leigu.

 Gísli sagði að á þeim tíma hafi Reykjavíkurborg haft rými á neðrihæð hússins á leigu og því hafi fyrri samningurinn, sem Stofnunin segir aðeins hafa verið drög, stangast á við leigusamning borgarinnar sem var leigjandi í húsinu þegar Stofnun múslima keypti húsið.

„Sá samningur rann út áramótin 2014 - 2015 og þá var áhugi hjá Reykjavíkurborg að leigja áfram þessa fasteign. Það var ekki hægt því það var allt í einu kominn inn þinglýstur leigusamningur sem menn vissu ekkert af,“ sagði Gísli. „Það er ekki hægt að gera leigusamning á meðan það er þinglýstur leigusamningur á húsinu, þá treysti Reykjavíkurborg sér ekki til þess að leigja áfram húsnæðið. Það leiddi til þess að tekjur stofnunar múslima á íslandi af húsinu eru engar.“

Sagði Gísli að hjá Menningarsetrinu færi ekki saman hljóð og mynd. Það vilji hafa öll réttindi til húsnæðisins en ekki greiða fyrir. „Þá má alveg eins leyfa hverjum sem er að flytja inn í  hvaða hús sem þeir vilja.“

Sagði Gísli að umbjóðendum sínum væri ekki hleypt inn í eigið húsnæði. Skipt hefði verið um skrár, honum væri meinað inngöngu og það lægi við handalögmálum ef menn á þeirra vegum sæjust nálægt byggingunni. Þá sagði hann að fyrrnefnd neðri hæð hússins væri samkvæmt heimildum umbjóðenda sinna notuð undir borðtennisborð „þannig að fyrirsvarsmaður félagsins geti spilað borðtennis“.

„Það er ekki sanngjarnt. Hvers vegna hefðu menn átt að gera samning upp á 10 þúsund þegar þeir voru með leigjanda sem vildi gera áframhaldandi leigusamning upp á tæpa hálfa milljón.“

Þinglýstu til að tryggja rétt sinn

Í framsögu sinni sagði Oddgeir óljóst á hvaða lagagrundvelli krafa gerðarbeiðanda byggðist. Einungis væri vísað til aðfararheimilda en engin slík væri fyrir hendi.
Sagði hann óumdeilt í málinu að ritað hafi verið undir samninginn frá 20. febrúar af hvorum aðila fyrir sig og ekki skipti máli hvort vottun hans væri samdægurs eða síðar en Gísli hafði þá bent á að stjórnarmenn þeir sem vottuðu samningin voru ekki í embætti 2012.

Jón Finnbjörnsson, dómari í málinu, spurði Oddgeir hvers vegna samningnum hafi verið þinglýst svo seint, þremur árum eftir að hann var gerður. Svaraði Oddgeir því til að umbjóðandi sinn hafi fengið þær upplýsingar við upphaf leigutíma síns að Reykjavíkurborg þyrfti að „klára sinn samning“ áður en Menningarsetrið gæti byrjað að nota þann hluta húsnæðisins.

Forsvarsmenn félagsins hafi fengið veður af því snemma árs 2015 að til stæði að framlengja samninginn við Reykjavíkurborg þvert á gerða samninga og því farið til PriceWaterhouseCoopers, endurskoðenda Stofnunnar Múslima, þar sem þeir fengu samninginn afhentan. Í kjölfarið hafi þeir þinglýst honum til að tryggja rétt sinn. Sagði Oddgeir leigutökum ekki bera skylda til að þinglýsa samninga strax og að ekkert segði að þeir mættu ekki gera það síðar. Tilgangur þinglýsingar væri enda að tryggja rétt leigutaka.

Menningarsetrið byggir lögmæti samningsins frá 20. desember einkum á tvennum rökum. Annars vegar því að forsvarsmenn setursins haf farið á skrifstofu PWC, endurskoðenda Stofnunarinnar, beðið um leigusamninginn og fengið hin meintu drög.

„Ef þetta voru bara drög, af hverju voru þá endurskoðendur með þennan samning í bókhaldsgögnum stofnunarinnar?“ spurði Oddgeir. Þá segir Menningarsetrið einnig að Stofnunin hafi notað samninginn til þess að fá undanþágu frá fasteignaskatti á grundvelli laga um trúfélög.

Hus­sein Al-Daoudi tek­ur við ávís­un fyr­ir hönd Stofn­un­ar múslima á …
Hus­sein Al-Daoudi tek­ur við ávís­un fyr­ir hönd Stofn­un­ar múslima á Íslandi frá Saad bin Ibra­him Al-Ibra­him, sendi­herra Sádi Ar­ab­íu Ljósmynd/ Utanríkisráðuneyti Sádi Arabíu

„Tvöfaldur í roðinu“

Þrátt fyrir að hinn samningurinn eða drögin frá 20. desember 2012 hljóði upp á 10 þúsund króna leigu hefur Menningarsetrið aldrei greitt hana til Stofnunarinnar. Oddgeir sagði ástæðuna þá að leiguupphæðin hafi einungis verið sögð táknræn af fyrrnefndum stjórnarformanni Stofnunarinnar Hus­sein Al-Daoudi. Lagði hann því til stuðnings fram útprentaðan tölvupóst á Arabísku þar sem fáeinar línur höfðu verið þýddar á ensku. Dómari spurði hvort ætlast væri til að hann skyldi innihald tölvupóstsins en Oddgeir neitaði þvi og sagði málsvörn Menningarsetursins ekki standa og falla með póstinum.

Sagði hann Menningarsetrið hafa reynt að greiða leigu til Stofnunarinnar en að upphæðin hefði ávallt verið greidd til baka. Inntur eftir því hvenær slíkar greiðslutilraunir höfðu fyrst átt sér stað hafði hann ekki svar á reiðum höndum en taldi þær þó hafa komið til í kjölfar ósættisins við Karim Askari,

Askari var sjálfur í dómsalnum en núverandi forsvarsmaður Menningarsetursins, ímaminn Ahmad Seddeeq, var ekki til staðar. Í svari við einni af spurningum dómara sagði Oddgeir Ahmed og aðra stjórnarmenn ekki hafa séð ástæðu til að þinglýsa samningnum fyrr en árið 2015 þegar þeir hafi áttað sig á því að fyrrverandi forsvarsmaður væri „tvöfaldur í roðinu“.

Gísli brást illa við þessum orðum og í andsvörum sínum sagði hann að þó svo að hann kysi ekki að fara fram á slíkt vildi hann benda á möguleika dómara á að beita réttarfarssekt vegna þeirra.

Þegar kom að andsvörum Oddgeirs sagði hann enga ástæðu til sekta. Umbjóðendur hans telji Karim einfaldlega tvöfaldan í roðinu. Málatilbúnaðar þeirra byggi á því að samningurinn sem dagsettur er 21. desember 2012 hafi ekki verið gerður á þeim degi. Sú ásökun sé í sjálfu sér mun verri en orðalagið sjálft.

Undir lok andsvara var tekist á um geymslugreiðslu. Sagði Gísli leigjandanum vera skylt að sýna fram á að greiðslan væri til reiðu, óháð því hvort leigusalinn kysi að taka við henni. Oddgeir svaraði því hinsvegar til að ekki þyrfti geymslugreiðslu þar sem málið snerist ekki um vanefndir og óumdeilt væri að greiðslum hafi verið skilað til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert