Svartgóma og litla brosma fest sig í sessi

Svartgóma
Svartgóma Wikipedia

Stofnmælingar Hafrannsóknastofnunar í mars benda til góðs ástands helstu botnfisktegunda og eru horfur á aukinni nýliðun í veiðistofna þorsks og ýsu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hafrannsóknastofnun, en lokaúttekt á niðurstöðum stofnmælinga og tillögur stofnunarinnar um aflamark næsta fiskveiðiár verða kynntar í byrjun júní.

Fram kemur að útbreiðsla á þorski hafi verið meiri að þessu sinni en í mörgum fyrri stofnmælingum í mars og góður afli hafi fengist á stöðvum allt í kringum landið. Mest hafi fengist af þorski utarlega á landgrunninu, frá Víkurál norður og austur um að Hvalbakshalla. Árgangur 2014 hafi mælst stór líkt og í síðustu stofnmælingu og fyrsta mat á 2015 árgangi bendi til þess að hann sé einnig stór.

Lengdardreifing og aldursgreiningar benda til þess að árgangurinn frá 2014 sé sterkur segir í tilkynningunni, en hann hafi komið í kjölfar sex lélegra árganga. Fyrsta mæling á árgangi 2015 bendi hins vegar til að hann sé undir meðalstærð. Ýsan veiddist á landgrunninu allt í kringum landið en meira fékkst af ýsu fyrir norðan land en sunnan. Breyting hafi orðið á útbreiðslu ýsunnar fyrir rúmum áratug, en árin 1985-1999 hafi alltaf fengist meira af ýsu við sunnanvert landið.

Gullkarfi fékkst víða en mest djúpt út af Faxaflóa, Breiðafirði og sunnanverðum Vestfjörðum. Steinbítur fékkst einnig víða, en mest á Vestfjarðamiðum eins og oftast
áður. Magn skötusels hefur ekki mælst minna frá árinu 2002 segir ennfremur, en er samt meira en fyrstu 15 ár stofnmælingarinnar. 

Þá er fjallað um það að upp úr aldamótum hafi magn ýmissa suðlægra tegunda í marsralli farið vaxandi við sunnanvert landið, m.a. silfurkóði, svartgómu og litlu brosmu. Af þeim hafi aðeins fengist stakir fiskar fyrstu 15 árin en árin 2010-2014 hafi fjöldi þeirra verið talinn í hundruðum. Mjög lítið hafi fengist af silfurkóði í ár, en svartgóma og litla brosma virðist hins vegar hafa fest sig í sessi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert