„Staða hreyfingarinnar kallar á róttækar breytingar og endurnýjun. Við þurfum að endurheimta traust og verkefnið okkar er að fá fólk til þess að hlusta á okkur. Annars náum við ekki árangri. Þess vegna held ég að það sé kominn tími til að breyta í forystu Samfylkingarinnar.“
Þetta segir Magnús Orri Schram sem sækist eftir formennsku í Samfylkingunni spurður um viðbrögð við þeirri ákvörðun Árna Páls Árnasonar, formanns flokksins, sem kynnt var í dag að bjóða sig fram til áframhaldandi formennsku. Landsfundur Samfylkingarinnar fer fram í maí þar sem meðal annars mun fara fram formannskjör.
Frétt mbl.is: Vill ganga á hólm við gamla pólitík
„Ég fagna því að ljóst er hvað formaðurinn ætlar að gera en það hefur ekki áhrif á mína ákvörðun að bjóða mig fram til formennsku,“ segir Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sem einnig sækist formennskunni í flokknum.
Guðmundur Ari Sigurjónsson segir ákvörðun Árna að sama skapi ekki hafa áhrif á sitt framboð. Aðspurður segir hann ákvörðun Árna ekki koma sér á óvart. Hann hafi verið farinn að reikna með því að hann gæfi áfram kost á sér. Annars hefði hann líklega verið búinn að tilkynna annað.
Ekki náðist í fjórða formannsframbjóðandann, Helga Hjörvar þingflokksformann Samfylkingarinnar.