Andlát: Ólafur Stephensen

Ólafur Stephensen, jazzpíanisti og auglýsingamaður, lést í fyrrinótt, áttræður að aldri. Ólafur fæddist í Reykjavík 1. febrúar 1936. Foreldrar hans voru Stephan Stephensen, kaupmaður í Verðanda og Ingibjörg Stephensen húsfreyja.

Ólafur útskrifaðist frá Verzlunarskóla Íslands 16. júní 1956 og stundaði síðar nám í almenningstengslum við Columbia University í New York auk náms í áróðurstækni og markaðsfræðum. Hann úrskrifaðist árið 1962.

Með Ólafi urðu tímamót í auglýsingastarfi hérlendis, tímabil markaðsmannsins tók við af tímabili teiknarans. Ólafur kom víða við á sínum ferli. Á námsárunum starfaði hann fyrir NBC News og META kennslusjónvarpið. Hann flutti fréttapistla í útvarpi Sameinuðu þjóðanna og hjá Voice of America auk þess sem hann starfaði fyrir AFRTS undir höfundarnafninu Sonny Greco. Ólafur var framkvæmdastjóri Rauða Kross Íslands, jazzpíanisti í Harlem, í forsvari fréttamiðstöðvar ráðherrafundar NATO í Reykjavik 1968 og stjórnandi sjónvarpsþáttar í Ríkissjónvarpinu. Hann var fyrsti Norðurlanda-kjörinn félagi í Advertising Club of N.Y, fyrsti forseti JC Reykjavik og fyrsti alþjóðavaraforseti JC hreyfingarinnar, umsjónarmaður jazzþátta í ríkishljóðvarpinu, dómari í verðlaunasamkeppni bandarískra auglýsingamanna og virkur frímúrari á Íslandi og í Portúgal. Hann var sæmdur heiðursmerki finnska Rauða krossins 1967.

Ólafur stofnaði auglýsingastofuna ÓSA og síðar Gott fólk og var fyrsti kjörni formaður SÍA. Ólafur skrifaði fjölda greina í blöð og tímarit um auglýsinga- og markaðsmál og gaf út verkið Nýtt og betra árið 1987. Ólafur Stephensen gaf út þrjár jazzplötur undir nafni Tríó Óla Steph, spilaði músík með fjölmörgum íslenskum og erlendum jazzböndum og var mikill áhugamaður um skylmingar.

Eftirlifandi eiginkona Ólafs er Klara Magnúsdóttir Stephensen og eignuðust þau fjögur börn: Díu Stephensen f. 1968, Stephan Stephensen f. 1971, Magnús Stephensen f. 1972 og Óla Björn Stephensen f. 1974.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert