Sagður hafa rofið dómssátt í viðtali

Kyrrð og ró einkennir þetta augnablik frá Seltjarnarnesi.
Kyrrð og ró einkennir þetta augnablik frá Seltjarnarnesi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í janúar síðastliðnum náðist dómssátt í máli Ólafs Melsted gegn Seltjarnarnesbæ, en Ólafur stefndi bænum 2011 vegna ólögmætrar uppsagnar og eineltis af hendi Ásgerðar Halldórsdóttur bæjarstjóra. Dómssáttin fólst í því að bærinn féllst á að greiða Ólafi skaðabætur. Ásgerður telur að Ólafur hafi brotið þann trúnað sem fólst í dómssáttinni með ummælum sínum í nýlegu blaðaviðtali.

Forsaga málsins er að Ólafur var ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra tækni- og umhverfissviðs bæjarins í júlí 2008 í tíð fyrri bæjarstjóra. Í viðtali við nýjasta tölublað Blaðs stéttarfélaganna segir Ólafur að eftir að Ásgerður tók við sem bæjarstjóri hafi „vandræðin hafist“. M.a. hafi verið gengið framhjá honum við ákvarðanatöku og smám saman hafi verkefni verið færð frá sviði hans. Ólafur hafi verið farinn að þjást af vanlíðan og kvíða, hann hafi óskað eftir starfslokasamningi en því hafi verið neitað.

Stefndi bænum árið 2011

Í lok janúar 2010 fór hann í veikindaleyfi skv. ráðleggingum læknis. Skömmu síðar fóru Ólafur og lögmaður fram á að eineltið yrði rannsakað. Því erindi var ekki svarað, samkvæmt viðtalinu og í kjölfarið hófust málaferli sem lauk með fyrrnefndri dómssátt. Í millitíðinni var skipulag stjórnsýslu bæjarins endurskipulagt og í því fólst m.a. að starf Ólafs var lagt niður um áramótin 2010-11.

Ólafur stefndi bænum vegna uppsagnarinnar, en málinu var vísað frá. Hann stefndi þá bænum aftur, bæði vegna eineltisins og uppsagnarinnar og réttað var í málinu í janúar með fyrrgreindum lyktum mála.

Í viðtalinu segir Ólafur m.a. að dómssáttin hafi falið í sér bætur vegna eineltis og ólögmætrar uppsagnar og að Ásgerður hafi beðið sig afsökunar fyrir framan dómara.

Rangfærslur og ósannindi

Ásgerður gerir athugasemdir við þennan málflutning Ólafs og segir að um alvarlegar rangfærslur og ósannindi sé að ræða. „Það var gerð ákveðin dómssátt og í því felst engin viðurkenning á sjónarmiðum Ólafs í málinu. Ég hef alltaf sagt að ég hafi ekki lagt hann í einelti og það, að ég hafi beðið hann afsökunar er ekki rétt. Eftir að dómarinn hafði lokið þinghaldi tók ég í hönd Ólafs og fjölskyldu hans óskaði þeim velfarnaðar. Hann fékk greiddar bætur, en ástæðan er trúnaðarmál samkvæmt dómssáttinni,“ segir Ásgerður.

„Það var mín upplifun að ég hefði verið beðinn afsökunar,“ segir Ólafur. „Ég leit á þetta sem afsökunarbeiðni fyrir öllum þeim óþægindum sem hún hafði valdið mér.“ Hann segir ekki rétt að í dómssáttinni hefði átt að felast trúnaður um ástæðu bótagreiðslunnar. „Trúnaðurinn náði eingöngu til upphæðarinnar sem ég fékk greidda,“ segir hann.

Ásgerður segir að málið sé nú í skoðun hjá lögmanni Seltjarnarnessbæjar sem telji að dómssáttin hafi hugsanlega verið rofin með þessum ummælum Ólafs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert