Magellan komið til Reykjavíkur

Skemmtiferðaskipið Magellan lagðist að Skarfabakka í Reykjavík í morgun en gert er ráð fyrir að skipið verði í höfuðborginni í rúman sólarhring. Samkvæmt áætlun leggur það af stað aftur á morgun upp úr hádegi. Skipið tekur 1.425 farþega og eru 650 manns í áhöfninni.

Þetta er í annað sinn sem Magellan kemur til Íslands á þessu ári en í fyrra skiptið kom skipið til landsins í mars. Skipið er rúmlega 46 þúsjnd brúttótonn að stærð. Árleg vertíð skemmtiferðaskipa hefst með komu skipsins að þessu sinni. 

Næstu skipakomur verða 17. maí eins og Morgunblaðið greinir frá í gær. Þá koma skipin Albatros og Celebrity Eclipse. Það síðarnefnda er fyrsta risaskips sumarsins, 121.878 brúttótonn. Áætlaðar komur skemmtiferðaskipa í ár eru 113 með samanlagt um 108 þúsund farþega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert