Verði ekki sundrunginni að bráð

Í ávarpi sínu á Ingólfstorgi í dag í tilefni af Verkalýðsdeginum sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ ófremdarástand í húsnæðismálum knýja hreyfinguna til að láta til sín taka á þeim vettvangi.

 Sagði hann hreyfinguna bíða þess að Alþingi afgreiði frumvörp um málaflokkinn áður en þau verði „sundrunginni að bráð í aðdraganda kosninga. Ef svo fer þá mun það hafa mjög alvarlegar afleiðingar á vinnumarkaði – því það væri hreinn og klár forsendubrestur í kjarasamningum ASÍ og SA sem koma næst til endurskoðunar í febrúar 2017.“

ASÍ fagnar 100 ára afmæli sínu í ár og sagði Gylfi að sem fyrr væru helstu baráttumál þess mannsæmandi laun, að hvíldartími sé virtur og að aðbúnaður og öryggi launafólks sé í lagi.

„Núna eru það einkum útlendingar og ungt fólk sem verður fyrir barðinu á ósvífnum atvinnurekendum og kjarklausum embættismönnum, en þessir hópar búa að minnstum upplýsingum um réttindi sín og standa því veikt fyrir. Afstaða verkalýðshreyfingarinnar er skýr; undirboð á vinnumarkaði eru ekki bara óásættanleg heldur grafa þau undan því vinnumarkaðskerfi sem við viljum hafa á Íslandi. Við ætlumst til þess að komið sé fram af sanngirni og virðingu við fólk. Það eiga allir að fá það sem þeim ber, launamaðurinn, samfélagið og atvinnurekandinn. Við viljum að Alþingi setji atvinnulífinu skýran ramma í löggjöf og tryggi að eftirlitsstofnanir hafi raunverulegt afl til þess að koma í veg fyrir misnotkun og spillingu. Stöndum þess vegna vaktina saman undir yfirskriftinni: Einn réttur og ekkert svindl.“

Gylfi sagði kröfu þjóðarinnar um kosningar skapa stjórnmálum einstakt tækifæri til að endurmeta og endurskilgreina samskipti sín við vinnumarkaðinn og til þess að færa sig nær þjóðinni.

„Íslensk verkalýðshreyfing hefur verk að vinna. Við verðum að verja þann árangur sem náðst hefur um leið og við sækjum fram til að byggja réttlátt samfélag til höfuðs misrétti og fátækt. Samfélag, þar sem komið er fram við alla af sanngirni og virðingu og þar sem örlög eins eru örlög okkar allra. Í þeirri baráttu er mikilvægt, nú sem fyrr, að við stöndum saman sem ein órofa heild.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert