Kynferðisbrot gegn andlega fatlaðri konu

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/ÞÖK

Karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið fundinn sekur um að hafa káfað innanklæða á brjóstum og kynfærum andlega fatlaðrar konu, en maðurinn sá um akstur fyrir Ferðaþjónustu fatlaðra og skutlaði konunni í nokkur skipti.

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness frá því á föstudaginn kemur fram að það sé hafið yfir skynsamlegan vafa með staðföstum framburði konunnar og vitnisburði fjölda vitna gegn ótrúverðugum framburði mannsins að hann hafi brotið af sér.

Var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi og til að greiða konunni tvær milljónir í miskabætur, en sérstaklega er horft til þess að ákærði hefur með broti sínu brotið gegn trúnaði og trausti sem brotaþoli mátti vænta í ferðum sínum með ákærða, sem hefur að mati dómsins aukið á andlegar afleiðingar brotsins.

Maðurinn var ákærður fyrir nauðgun og kynferðislega áreitni, meðal annars að hafa haft á tímabilinu frá byrjun árs 2013 til 14. mars 2013 í fjögur skipti haft samræði og önnur kynferðismök við konuna.

Í dóminum kemur fram að það þyki vera sá vafi í málinu að ekki sé hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hafi haft samræði eða önnur kynferðismök við konuna, þar á meðal að setja fingur í leggöng hennar. Er hann því sýknaður af þeim hluta ákærunnar.

Málið hófst árið 2013 þegar konan sagði móður og starfsmanni heimilis sem hún bjó á frá brotum mannsins. Tók lögreglan skýrsla af bæði konunni og manninum, en ári síðar var rannsókn málsins hætt hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Var ákvörðunin kærð til ríkissaksóknara sem óskaði eftir frekari skoðun á málinu af hálfu lögreglustjórans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert