Greiddi 15 ára dreng fyrir kynlíf

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Hjörtur

Karlmaður á fimmtugsaldri var í dag dæmdur í 45 daga fangelsi og til að greiða 300 þúsund krónur í miskabætur fyrir að hafa lofað 15 ára gömlum dreng 10 þúsund króna greiðslu fyrir kynferðismök á heimili mannsins í júní árið 2011.

Í dómnum eru rakin nokkur skipti þar sem maðurinn og drengurinn eiga í samskiptum í gegnum MSN samskiptaforritið. Drengurinn sagðist í þeim samskiptum vera 16 ára gamall. Segir maðurinn meðal annars að hann sé að leita að „strák til að hitta og leika við.“ Ræða þeir svo um verð.

Maðurinn neitaði sök í málinu þó hann kannaðist við samskiptin á MSN. Sagðist hann hafa notað forritið til að spjalla við stráka og leita að einhverjum til að hitta. Hann hafi þó ekki verið að leita að kynlífi gegn greiðslu.

Fram kemur að málið hafi komið upp eftir að aðsúgur var gerður að heimili mannsins og hann óskaði aðstoðar lögreglu. Í framhaldi af því hafi lögreglumenn séð ástæðu til þess að haldleggja tölvubúnað í eigu hans.

Í dómnum kemur fram að ekki fari á milli mála að drengurinn býður manninum kynlíf gegn greiðslu sem maðurinn samþykki eftir að hafa fengið lýsingu á útliti drengsins og náð samkomulagi um verð.

Framburður brotamannsins er aftur á móti talinn ótrúverðugur. Hann hafi vitað um ungan aldur drengsins og er því fundinn sekur um brot á 2. málsgrein 206. greinar almennra hegningarlaga. Þar segir að hver sem greiði eða heitir greiðslu eða annars konar endurgjaldi fyrir vændi barns undir 18 ára aldri skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Refsing mannsins er skilorðsbundin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert