Hreiðar Már kominn á Vernd

Hreiðar Már Sigurðsson afplánar nú dóm sinn á Vernd.
Hreiðar Már Sigurðsson afplánar nú dóm sinn á Vernd. Ómar Óskarsson

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, er laus af Kvíabryggju og kominn í afplánun á áfangaheimilinu Vernd að því er greint var frá í kvöldfréttum RÚV.

Hreiðar Már hlaut fimm og hálfs árs dóm í Hæstarétti í Al-Thani málinu í febrúar á síðasta ári. Þar með eru allir sakborningarnir fjórir í málinu að afplána dóma sína á Vernd.

Hreiðar Már, Sigurður Einarsson, Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson voru allir sakfelldir af Hæstarétti í Al-Thani málinu og hlaut Hreiðar Már þyngsta dóminn, fimm og hálft ár. Sigurður var dæmdur í fimm ára fangelsi, Ólafur fékk þrjú og hálft ár og Magnús þrjú ár. 

Sigurður, Ólafur og Magnús losnuðu allir af Kvíabryggju í byrjun síðasta mánaðar og munu afplána nokkra mánuði á Vernd og geta að því loknu dvalið á eigin heimili, undir rafrænu eftirliti með ökklaböndum, þangað til þeir fá reynslulausn. 

Þar sem Hreiðar Már fékk lengri dóm en hinir þá þurfti hann að afplána lengri tíma á Kvíabryggju eða 14 og hálfan mánuð. Hann verður á áfangaheimilinu í sjö og hálfan mánuð. Að því búnu verður hann undir rafrænu eftirliti í 11 mánuði.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert