Þarf að hætta sem framkvæmdastjóri Lyfja og heilsu

Samkvæmt lögum um hlutafélög og einkahlutafélög mega stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar …
Samkvæmt lögum um hlutafélög og einkahlutafélög mega stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur. Jim Smart

Karl Wernersson þarf að hætta sem framkvæmdastjóri Lyfja og heilsu eftir að hann var dæmdur fyrir efnahagsbrot í Hæstarétti að því er fram kemur á fréttavef RÚV.

Karl á og rekur Lyf og heilsu, eina stærstu lyfjaverslunarkeðju landsins, en eignarhaldið er í gegnum röð félaga. Eru Lyf og heilsa að fullu í eigu félagsins Faxar ehf. sem er í eigu félagsins Faxi ehf., sem aftur er að fullu í eigu þriðja félagsins, Toska ehf. En Karl Wernersson á allt hlutafé í Toska, samkvæmt síðasta ársreikningi félagsins.

Karl var í síðustu viku dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að misnota aðstöðu sína hjá eignarhaldsfélaginu Milestone í milljarða króna viðskiptum fyrir hrun. Samkvæmt lögum um hlutafélög og einkahlutafélög mega stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur.

Ákvæðið gildir í þrjú ár frá því dómur fellur. Þetta þýðir, samkvæmt upplýsingum fréttastofu RÚV, að Karl þarf að hætta sem framkvæmdastjóri Lyfja og heilsu. Hann er auk þess skráður í stjórn, varastjórn eða framkvæmdastjórn 13 annarra félaga, samkvæmt fyrirtækjaskrá, og þarf eftir dóminn líka að láta af þeim störfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert