Vísað af heimilinu í mánuð

Maðurinn verður ákærður fyrir heimilisofbeldi. Myndin er úr safni og …
Maðurinn verður ákærður fyrir heimilisofbeldi. Myndin er úr safni og er sviðsett.

Karlmanni á fertugsaldri sem handtekinn var vegna heimilisofbeldis í Túnahverfi á Akureyri í gærmorgun var sleppt að lokinni yfirheyrslu í gærkvöldi. Lögreglustjóri hefur ákveðið að vísa manninum af heimili sínu í mánuð en hann verður ákærður fyrir heimilisofbeldi og líkamsárás.

Lögreglan á Akureyri lokaði þremur götum vegna þess að í tilkynningu til hennar hafði komið fram að maðurinn hafi hótað því að beita skotvopnum. Sérsveit ríkislögreglustjóra var meðal annars kölluð út. Maðurinn var hins vegar handtekinn átakalaust en í íbúðinni voru tvær haglabyssur gerðar upptækar ásamt töluverðu magni skotfæra.

Að sögn Gunnars Jóhannssonar, lögreglufulltrúa hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, verður maðurinn ákærður fyrir heimilisofbeldi og líkamsárás. Eftir eigi að taka afstöðu til þess hvort hann verði ákærður fyrir hugsanlegt brot á vopnalögum.

Héraðsdómur Norðurlands eystra mun taka afstöðu til ákvörðunar lögreglustjóra um að vísa manninum af heimilinu vegna heimilisofbeldisins á næstu dögum.

Spurður að því hvort að hætta hafi stafað af manninum segir Gunnar svo ekki vera.

„Ekki nema bara gangvart sjálfum sér,“ segir hann.

Fyrri frétt mbl.is: Lokuðu götum vegna vopnahótunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert