Bjarni: „Sígandi lukka er best“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mælti fyrir fjármálaáætlun til fimm ára á Alþingi fyrr í dag. Bjarni segir Íslendinga vera í öfundsverðri stöðu. „Mikill vöxtur, lækkandi skuldir, tækifæri til að styrkja innviði samfélagsins og létta undir með fólki og fyrirtækjum með lægri sköttum og gjöldum.“

Þetta segir Bjarni í færslu á Facebooksíðu sínni. 

Bjarni segir ennfremur, að framhaldið ráðist af því hvaða leið verði valin. „Frá því áætlunin kom fram hefur komið í ljós að vinstri flokkarnir vilja hærri skatta og talsvert meiri útgjöld,“ segir Bjarni.

„Ég mun áfram tala fyrir lægri sköttum, uppgreiðslu skulda og þannig traustum grunni fyrir sameiginlegum verkefnum - þéttu öryggisneti fyrir þá sem á stuðningi þurfa að halda.
Sígandi lukka er best,“ segir hann ennfremur.

Nokkur helstu verkefni sem gert er ráð fyrir rúmist innan tímabilsins:

  • Heilbrigðismál. Í áætluninni er gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála verði aukin verulega á næstu árum þannig að þau verði orðin ríflega 30 milljörðum króna hærri árið 2021 og verði þar með orðin ríflega 200 milljarðar króna á ári. Það svarar til þess að framlögin verði aukin um 18% að raunvirði yfir tímabilið. Sú aukning er fyrir utan allar launahækkanir sem munu bætast við á tímabilinu auk annarra verðlagsbreytinga. Þá nema framlög til kaupa á tækjabúnaði fyrir LSH og FSA 5 milljörðum á árunum 2016-2021 og 2,5 milljörðum verður varið til styttingar á biðlistum á sama tímabili.   
  • Nýr Landspítali. Byggingaframkvæmdir við fyrsta verkáfanga, einkum meðferðarkjarna og rannsóknarhús, verði boðnar út 2018 og komnar á fullan skrið árin 2019–2021. Þær koma til viðbótar byggingu sjúkrahótels, sem áformað er að ljúki 2017, og fullnaðarhönnun nýs meðferðarkjarna sem þegar hafði verið gert ráð fyrir í fjárlögum 2016 og síðustu ríkisfjármálaáætlun.
  • Fæðingarorlof. Gert er ráð fyrir að hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verði hækkaðar um 130 þúsund krónur í byrjun næsta árs í 500 þúsund krónur á mánuði, en markmiðið er að færa greiðslurnar í átt að því sem þær voru fyrir 2009. Samtals eykst framlag til sjóðsins um 1 milljarð króna á árunum 2017–2018.
  • Framhaldsskólar. Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir að framlög til framhaldsskólastigsins vaxi um 3,2 milljarða króna að raunvirði frá og með árinu 2016 og til ársins 2021, eða sem svarar til nálægt 12% raunvaxtar yfir tímabilið á sama tíma og rekstrarkostnaður skólanna mun lækka vegna styttingar námsins úr fjórum árum í þrjú.  
  • Húsnæðismál. Áfram verður gert ráð fyrir 1,5 milljörðum króna í áætluninni vegna stofnframlaga til uppbyggingar á félagslegum leiguíbúðum.
  • Þrjú ný hjúkrunarheimili. Heildarkostnaður ríkisins vegna byggingar þriggja nýrra hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu er um 4,7milljarðar króna.
  • Hús íslenskra fræða. Lokið verður við framkvæmdina á tímabilinu og renna alls 3,7 milljarðar króna til verkefnisins.  
  • Ný Vestmannaeyjaferja. Á tímabilinu verður ný ferja að fullu fjármögnuð og smíðuð en áætlaður kostnaður við ferjuna og botndælubúnað nemur nálægt 6 milljörðum króna.
  • Ferðamannastaðir. Stóraukin framlög renna til uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum en gert er ráð fyrir að þau verði alls um 6 milljarðar króna, eða um 1,2 milljarðar á ári.
  • Dýrafjarðargöng. Áætluð útgjöld vegna gerðar ganganna nema ríflega 12 milljörðum króna á tímabilinu. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert