Eftirliti íslenskra vega áfátt

Eftirlitimeð aksturshæfni vöruflutningabifreiða á Íslandi er sagt ófullnægjandi. Myndin er …
Eftirlitimeð aksturshæfni vöruflutningabifreiða á Íslandi er sagt ófullnægjandi. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. mbl.is/Reynir Sveinsson

Eftirlitsstofnun EFTA hefur vísað tveimur málum gegn Íslandi sem varða öryggi á vegum til EFTA-dómstólsins. Íslensk lög og stjórnsýsluframkvæmd varðandi eftirlit með flutningi á hættulegum farmi og tæknilegt eftirlit á vegum með aksturshæfni vöruflutningabifreiða standast ekki kröfur EES.

Í tilkynningu frá ESA, eftirlitsstofnun EFTA, kemur fram að stofnunin hafi vísað tveimur málum gegn Íslandi til dómstólsins í dag. Annars vegar fyrir ranga innleiðingu á tilskipun 95/50/EC um samræmt eftirlit með flutningi á hættulegum farmi á vegum, og hins vegar tilskipun 2000/30/EB um tæknilegt eftirlit á vegum með aksturshæfni vöruflutningabifreiða.

Tilskipun 95/50/EC er um eftirlit til að tryggja örugga landflutninga á hættulegum farmi, svo sem eldfimum, sprengifimum eða eitruðum efnum sem eru til dæmis notuð í landbúnaði og stóriðju. Reglurnar lúta að verklagi við eftirlit með farmi bíla og lýsa því að hverju yfirvöld skuli leita. ESA segir gildandi reglur ekki fullnægja öryggiskröfum á evrópska efnahagssvæðinu.

Tilskipun 2000/30/EC kveður á um tæknilegt eftirlit með vöruflutningabifreiðum á vegum úti til að bæta öryggi, vernda umhverfið og tryggja að kröfum um reglulega skoðun með aksturshæfni vöruflutningabifreiða sé fylgt.

Ítrekað gefinn kostur á úrbótum

ESA telur tæknilegt eftirlit á vegum á Íslandi ekki uppfylla skilyrði tilskipunarinnar. Þau atriði sem beri að skoða samkvæmt íslenskum lögum taki heldur ekki til alls þess sem krafist er í tilskipuninni. Þá sé skyldu til að afhenda ökumönnum skoðunarskýrslu á stöðluðu formi ekki fullnægt.

„Íslandi hefur ítrekað verið gefinn kostur á úrbótum og að koma röksemdum sínum á framfæri. Ísland hefur þó ekki innleitt tilskipanirnar á fullnægjandi hátt og verður málinu nú vísað til EFTA dómstólsins. Það er lokaskrefið í formlegu samningsbrotamáli ESA á hendur EFTA-ríki,“ segir í tilkynningu ESA.

Tilkynningin á vef ESA

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert