Óhamingju Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, virðist verða allt að vopni. Blaðamaður breska blaðsins The Guardian sem er staddur hér á landi kallar hamingjuóskir hans til Leicester með Englandsmeistaratitilinn fáránlega tilraun til að stökkva á vagn liðsins.
Afrek Leicester City hefur vakið heimsathygli enda er liðið einn óvæntasti sigurvegari í ensku deildinni í áratugi. Sigmundur Davíð notaði tækifærið og óskaði liðinu til hamingju með árangurinn á Facebook. Kallaði hann Leicester meðal annars Ísland Bretlands vegna þess að íbúafjöldi borgarinnar er svipaður og á Íslandi.
Breska blaðamanninum Barney Ronay, einum aðalknattspyrnuskríbent The Guardian, þykir hins vegar ekki mikið til hamingjuóska íslenska fyrrverandi forsætisráðherrans koma. Í færslu á Twitter segir hann Sigmund Davíð, sem sagði af sér vegna Panamaskjalanna, bætast í hóp breska íhaldsþingmannsins Zac Goldsmith í fáránlegustu tilrauninni til þess að stökkva á vagn Leicester-liðsins í kjölfar velgengni þess.
Ronay virðist vera staddur á Íslandi og því inni í málum hér á landi en hann birtir meðal annars mynd frá leik KR og Víkings í Frostaskjóli í gærkvöldi sem hann segir hafa farið fram í ískaldri láréttri slyddu.
Icelandic ex-PM, resigned over Panama Papers, joins Zac Goldsmith in ludicrous attempt to piggyback Leicester story https://t.co/5owoBr7ahf
— Barney Ronay (@barneyronay) May 3, 2016