Læknafélagið hafnar frumvarpinu

Læknar að störfum.
Læknar að störfum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Læknafélag Íslands leggst eindregið gegn frumvarpi að lögum um breytingar á kostnaðarþátttöku sjúklinga innan heilbrigðiskerfisins. Þetta kemur fram í umsögn félagsins um frumvarpið sem birt hefur verið á vef Alþingis. Læknafélagið óskar eftir því í umsögn sinni að senda fulltrúa sína til fundar við velferðarnefnd þingsins til þess að ræða frumvarpið.

Meðal þess sem Læknafélagið gerir athugasemd við í frumvarpinu er að í nýja kerfinu sé þakið á mánaðarlegum kostnaði sjúkratryggðra vegna heilbrigðisþjónustu of hátt. Félagið gerir einnig athugasemd við það að í gögnum með frumvarpinu sé gefið í skyn að haft hafi verið samráð við Læknafélagið við samningu frumvarpsins. Það væri hins vegar ekki rétt.

Læknafélagið telur jákvætt að stefnt sé að því að minnka verulega kostnað þeirra sem ættu við alvarleg veikindi að glíma. Hins vegar gæti hærri kostnaður fyrir þá sem glíma við vægari veikindi leitt til þess að þeir leituðu síður til heilbrigðiskerfisins. „Til lengdar er það ekki til góðs hvorki fyrir heilsu einstaklinga né heilbrigðiskostnað að sjúkratryggðir dragi að leita sér heilbrigðisþjónustu. Slíkur dráttur getur orðið verulega kostnaðarsamur fyrir heilbrigðiskerfið vegna alvarlegra fylgikvilla sem þá geta komið upp hjá sjúklingum.“

Læknafélagið gerir ekki athugasemdir við það að heilsugæslan skuli vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu en bendir á að við núverandi aðstæður gangi það ekki upp. Þannig skorti tugi heilsugæslulækna og tugþúsundir sjúkratryggðra séu ekki með skráðan heilsugæslu- eða heimilislækni. Þannig séu hugmyndir um hærra gjald fyrir þá sem sæki þjónustu annarra heilsugæslustöðvar eða heimilislæknis ekki raunhæfar.

„Við þessar kringumstæður sýnist óraunhæft að ætla að setja á þjónustustýringu sem felur í sér að heilsugæslan verði ætíð fyrsti viðkomustaður. Til að ná þessu markmiði verður fyrst að fjölga heilsugæslustöðum í þéttbýli og fjölga heilsugæslu- og heimilislæknum. Við núverandi aðstæður í heilsugæslunni er mjög óraunhæft að ætla að setja á þjónustustýringarkerfi af því tagi sem frumvarpið gerir ráð fyrir,“ segir ennfremur í umsögninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert