Lélegt ferðaveður fram eftir morgni

Lélegt ferðaveður verður á norðanverðu landinu í dag.
Lélegt ferðaveður verður á norðanverðu landinu í dag. Mynd/Skapti Hallgrímsson

Búast má við talsverðri ofankomu og lélegu ferðaveðri í snjókomu og skafrenningi norðan- og norðvestantil fram eftir morgni í dag. Slydda eða snjókoma er fyrir norðan en stöku skúrir eða él syðra samkvæmt spá Veðurstofunnar.

Spáð er norðvestan 10-18 m/s, hvassast NV-til. Slyddu eða snjókomu fyrir norðan og talsverðri úrkomu NV-lands, en stöku skúrum eða éljum syðra. Smám saman á að draga úr vindi og úrkomu á norðanverðu landinu síðdegis og í kvöld. 

Víða á Vestfjörðum og vestantil á Norðurlandi hefur snjóað nokkuð frá í gærkvöldi, að því er kemur fram á vef Vegagerðarinnar. Á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum er hvasst og lítið skyggni, en skárra á Holtavörðuheiði. Dregur mikið úr bæði snjókomu og vindi, þegar líður á morguninn, einkum eftir kl. 10.

Vegir eru greiðfærir á Suðaustur- og Suðurlandi. Á Vesturlandi er hálka á Holtavörðuheiði og hálkublettir og skafrenningur á Bröttubrekku en annars að mestu greiðfært.

Snjóþekja er á flestum fjallvegum á Vestfjörðum en þungfært er á Steingrímsfjarðarheiði og ófært á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði. Vegir á láglendi eru að mestu greiðfærir en þó er krap á nokkrum köflum.

Á Norðurlandi vestra er krapasnjór í Skagafirði og þæfingsfærð milli Sauðárkróks og Hofsóss. Þungfært er á Þverárfjalli en unnið að hreinsun.

Norðaustanlands er hálka í kringum Mývatn og á Hófaskarði og snjóþekja á Tjörnesi og Mývatnsöræfum. Ófært er á Dettifossvegi.

Á Austurlandi eru vegir greiðfærir á láglendi en þæfingsfærð er á Möðrudalsöræfum, hálka á Fjarðarheiði og hálkublettir á Oddskarði. Ófært er á Öxi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert