Miklu heilbrigðari hagvöxtur

Þorsteinn Vígmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Þorsteinn Vígmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er alveg ljóst að það verður öflugur hagvöxtur á þessu ári. Miðað við þann vöxt sem við sjáum í ferðaþjónustunni og þennan gríðarlega vöxt í einkaneyslunni þá þurfa slíkar tölur ekkert að koma á óvart. Fyrri spár hafa verið í kringum 4% og síðan þær tölur voru settar fram bendir flest til þess kröftugri vaxtar ef eitthvað er.“

Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við mbl.is um nýja þjóðhagsspá hagdeildar Alþýðusambands Íslands fyrir næstu tvö ár en þar er gert ráð fyrir 4,9% hagvexti á þessu ári og að jafnaði 3,8% vexti á árunum 2017 til 2018. Þorsteinn segir slíkar tölur þannig ekki þurfa að koma á óvart miðað við gríðarlega mikla kaupmáttaraukningu undanfarin tvö ár eða svo og uppgang í flestum atvinnugreinum.

„Það er töluvert mikið um fjárfestingar og töluverð aukning í útflutningstekjunum þannig að það þarf ekki að koma mjög á óvart ef þetta gengur eftir,“ segir Þorsteinn. Spurður hvort þessi hagvöxtur sé sjálfbær segir hann að það góða við yfirstandandi hagvaxtarskeið vera það að þrátt fyrir aukna einkaneyslu sé rauði þráðurinn enn vöxturinn í útflutningsgreinunum. 

Lítið orðið vart við aukna skuldsetningu

„Þannig að við erum að sjá áfram alveg gríðarlega öfluga þróun þar. Við erum að sjá mikla aukningu í þjónustutekjunum. Við erum meira að segja farin að horfa upp á vöruskiptahalla hérna á nýjan leik en ekkert sem vegur mikið á móti þessum mikla afgangi af þjónustuviðskiptunum ennþá þannig að þetta er mun heilbrigðari hagvöxtur en við vorum að upplifa fyrir um áratug,“ segir Þorsteinn ennfremur.

Þó krafturinn í hagsveiflunni nú minni um margt á stöðuna fyrir um áratug þá sé ástandið þannig miklu heilbrigðara í alla staði. „Bæði hefur lítið orðið vart við aukna skuldsetningu, bæði hvað varðar atvinnulífið og heimilin, og miklu meiri hagvöxtur að koma frá útflutningi en var á þeim tíma. Þannig að ég held að þjóðhagslegar stærðir séu í miklu meira jafnvægi en þá var.“

Eftir sem áður sé full ástæða til þess að vera á varðbergi í hagstjórninni og sporna gegn of mikilli þenslu og verðbólgumyndun. „Það eru ýmis hættumerki þar eins og of miklar launahækkanir. En enn sem komið er hefur komið á óvart í raun og veru hversu lítil verðbólgan hefur orðið ennþá og hversu heilbrigður þessi hagvöxtur hefur verið. En hann er mjög kröftugur og því full ástæða til þess að vera á varðbergi.“

Eftir sem áður full ástæða til að vera á verði

Verðbólgu hafi verið haldið niðri undanfarið eitt og hálft ár fyrst og fremst með styrkingu í gengi krónunnar. Fyrir vikið hafi verið talsverð verðbólga innanlands á því tímabili á móti hafi komið erlend verðhjöðnun eins og í gegnum lækkun olíuverðs og lækkun á innfluttum vörum vegna gengisstyrkingar. Þetta sé kunnugleg staða á fyrri hluta sterkrar hagsveiflu.

„Hækkandi stýrivextir leiða til töluverðs innflæðis á fjármagni sem styrkir gengi krónunnar og heldur verðbólgunni framan af í skefjum en síðan brýst hún fram þegar gengið tekur að veikjast á nýjan leik. Við þurfum því að gæta okkur á því að ástand þar sem verðbólgu er haldið niðri með gengisstyrkingu er ekki sjálfbært,“ segir Þorsteinn.

Þannig hafi olíuverð til að mynda verið að snúast við og gæti alltaf gert það. „Við þurfum auðvitað að gæta að því sem við getum haft stjórn á. Við höfum verið lánsöm með þessa þróun á undanförnum 12-18 mánuðum en það verður varla til eilífðarnóns.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert