Vafi um heimilisfesti Dorritar

Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson.
Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson. mbl.is/Styrmir Kári

Dorrit Moussaieff, eiginkona Ólafs Ragnars Grímssonar forseta, ber takmarkaða skattskyldu á Bretlandi og á sitt aðalheimili utan landsins. Þetta má skilja á umfjöllun The Guardian. Skrifstofa forseta Íslands hefur alltaf sagt Dorriti búsetta á Bretlandi og greiða alla sína skatta þar.

Í svörum skrifstofu forseta um stöðu Dorritar hefur ætíð verið fullyrt að hún sé breskur ríkisborgari með lögheimili þar. Hún greiði því alla sína skatta þar. Þau Ólafur Ragnar eru skráð sem „hjón ekki í samvistum“ í þjóðskrá. 

Í umfjöllun um tengsl forsetafrúarinnar við aflandsfélög segir breska blaðið The Guardian hins vegar að Dorrit beri takmarkaða skattskyldu á Bretlandi þar sem hún er ekki með skattalega heimilisfesti (e. non-domiciled resident). Í skilgreiningu á vefsíðu breskra yfirvalda er sú staða sögð ná til íbúa á Bretlandi sem eiga sitt aðalheimili utan landsins.

Það þýðir að forsetafrúin þarf ekki að greiða skatta á Bretlandi af tekjum eða hagnaði sem verður til utan landsins ef hann er innan við 2.000 pund (jafnvirði um 356 þúsund króna m.v. 3. maí 2016) á ári og hann er ekki fluttur til Bretlands.

Séu tekjurnar eða hagnaðurinn hærri þarf viðkomandi að gefa hann sjálfur upp til skatts. Hann getur þá annað hvort greitt af honum skatt og mögulega átt rétt á endurgreiðslu eða gert kröfu um yfirfærslu hagnaðar. Þá greiðir einstaklingurinn aðeins skatt af því fé sem hann færir til Bretlands. Í því tilfelli missir hann hins vegar ákveðin skattfríðindi og þarf að greiða árlegt gjald á bilinu 30-50 þúsund pund eftir hversu lengi hann hefur haft þessa stöðu.

Skjöl frá HSBC-bankanum í Sviss eru sögð sýna fram á tengsl Dorritar við aflandsfélög og sjóði sem skráðir hafa verið utan Bretlands. Þar á meðal hafi hún verið einn þriggja meðlima Moussaieff-fjölskyldunnar sem voru skráðir eigendur félags á Bresku Jómfrúareyjum. Hún hafi einnig notið góðs af sjóði í eigu fjölskyldunnar.

The Guardian segir gögnin einnig benda til þess að Dorrit komi til með að erfa meira af aflandsauði fjölskyldunnar þegar móðir hennar Alisa fellur frá. Hún er 86 ára gömul.

Umfjöllun The Guardian um aflandsfélög sem tengjast Dorrit Moussaief

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert