Vilja Hrafn í burtu af sumarhúsalóð

Hrafn Gunnlaugsson á í deilum við OR vegna lóðar við …
Hrafn Gunnlaugsson á í deilum við OR vegna lóðar við Helluvatn. Morgunblaðið/Ómar

Aðalmeðferð í dómsmáli Hrafns Gunnlaugssonar gegn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) til að fá samþykkta kröfu sína um leiguréttindi á jörð  undir sumarhús hans við Elliðavatn fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. OR er eigandi jarðarinnar sem og annarra sumarhúsalóða á svæðinu. Vill fyrirtækið þau sumarhús, sem eru við þann hluta Elliðavatns sem kallast Helluvatn, í burtu og segir að um vatnsverndarsjónarmið sé að ræða.

Upphaf málsins má rekja til þess að fjölskylda Hrafns hafði fengið erfðafestusamning á eins hektara lóð við vatnið með afsals sem Þórður Sveinsson, afi Hrafns, og fleiri gerðu við forrennara Orkuveitunnar vegna landsins. Var þar skýrt tekið fram að Þórður, kona hans og börn hefðu afnotarétt af einum hektara á landinu.

Nær aftur til afsals frá árinu 1927

Var afsalið gert árið 1927, en á sjöunda áratug síðustu aldar létu foreldrar Hrafns byggja þar sumarhús á steyptum sökkli. Húsið brann aftur á móti árið 2004 og var þá strax farið í að byggja nýtt hús á sama grunni.

Við fráfalla langlífasta barns Þórðar árið 2013 var aftur á móti ljóst að erfðafestusamningurinn var útrunninn. Deila nú OR og Hrafn um það hvort komist hafi á bindandi samkomulag árið 2004, þegar farið var í endurbyggingu hússins eftir brunann, á því hvort Hrafn og fjölskylda fengju áframhaldandi nýtingarétt af lóðinni.

Orkuveita Reykjavíkur telur að vatnsverndarsjónarmið spili stórt hlutverk í að …
Orkuveita Reykjavíkur telur að vatnsverndarsjónarmið spili stórt hlutverk í að takmarka eigi umferð og nýtingu lóðanna við vatnið. Svæðið er í útjaðri vatnsverndarsvæðis Gvendarbrunna sem sjá höfuðborgarbúum fyrir neysluvatni. mbl.is/Hjörtur

Náðist samkomulag árið 2004 við Alfreð Þorsteinsson?

Hrafn telur að slíkt samkomulag hafi náðst árið 2004 áður en farið var í framkvæmdirnar og vísar þar til þess að móðir hans hafi fengið leyfi frá Alfreð Þorsteinssyni, þáverandi stjórnarformanni OR og Guðmundi Þóroddssyni, þáverandi forstjóra, fyrir byggingunni. Mættu þeir meðal annars fyrir dóminn til að vitna til um aðkomu sína að málinu fyrir 12 árum.

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Hrafns, spurði Alfreð hvort hann gæti staðfest að hafa átt í samskiptum við móður Hrafns sem Alfreð gerði. Staðfesti hann einnig að hafa tekið vel í fyrirspurn hennar og vísað því áfram til lögfræðings félagsins, Hjörleifs Kvaran. Það er á þessum punkti sem málsaðilar eru ósammála, en lögmaður OR segir að fyrst ekki liggi fyrir neinn formlegur samningur hafi málið aldrei verið klárað heldur hafi því aðeins verið vísað til starfsmanna fyrirtækisins til að ræða áfram við eigendur hússins.

Vilji stjórnenda til að framlengja samkomulagið

Jón Steinar sagði í dómsal í dag að afstaða stjórnarformannsins og Guðmundar, sem sagði að ekki hefði skipt máli hvort samningurinn vegna þessarar lóðar yrði framlengdur, sýndi að vilji stjórnenda fyrirtækisins hefði verið til að framlengja samninginn við móður Hrafns og fjölskyldu hans, þótt enginn formlegur samningur hefði legið fyrir. Þá benti hann á að Reykjavíkurborg hefði gefið út byggingarleyfi vegna framkvæmdanna og það væri á þeirra ábyrgð að ganga úr skugga um að lóðaeigandi gæfi samkomulag fyrir slíku. Þá væri OR að mestu í eigu Reykjavíkurborgar og því væri ákvörðun borgarinnar í raun ákvörðun sem eiganda fyrirtækisins.

Enginn endanlegur samningur

Þessu var lögmaður OR ósammála og benti meðal annars á að byggingaleyfisgjald vegna framkvæmdanna hefði ekki verið greitt fyrr en nokkrum mánuðum eftir að framkvæmdir hófust. Það eitt og sér gerði framkvæmdina ólöglega árið 2004. Nú hefði Hrafn fengið að eiga húsið án leigugjalds í þrjú ár frá því að erfðafestusamningurinn rann út. Þá hefði honum verið boðið að halda afnotarétti í 15 ár í viðbót, eða þangað til hann sjálfur sem skráður eigandi hússins myndi falla frá. Þetta væri sama tilboð og öðrum eigendum húsa við Helluvatn hefði verið boðið.

Sagði lögmaður OR að það hefði verið og væri stefna OR að draga úr umferð á svæðinu þar sem það væri innan vatnsverndarsvæðis. Það að rífa niður húsin væri hluti af þeirri stefnu. Svæðið er í útjaðri vatnsverndarsvæðis Gvendarbrunna sem sjá höfuðborgarbúum fyrir neysluvatni.

Bústaðurinn er við Helluvatn, en vatnið liggur út frá norðaustur …
Bústaðurinn er við Helluvatn, en vatnið liggur út frá norðaustur hluta Elliðavatns. Ómar Óskarsson

Jón Steinar sagði þessa framgöngu aftur á móti óvirðingu við Hrafn og eigendur húsanna. Þannig hefði verið farið í byggingu á steinhúsi eftir brunann og það væri byggingarefni sem væri hugsað til margra áratuga en ekki 10-20 ára. Sagði hann kostnað fjölskyldunnar vegna þessa mikinn og að OR væri að brjóta gegn eignarrétti með að segja Hrafni að hypja sig og vilja rífa húsið.

Vísaði í dóm sem Jón Steinar hafði sjálfur dæmt í Hæstarétti

Lögmaður OR sagði á móti að dómar hefðu fallið í svipuðum málum þar sem leigutaki jarðar hefði reist varanlegar byggingar og niðurstaða þeirra væru á þann veg að leigjendur þyrftu að bera þann kross að hafa reist byggingar til lengri tíma þegar þeir vissu að leigusamningur væri að renna út. „Stefnandi [Hrafn] þarf því að bera þann kross að hafa byggt varanlegt hús þrátt fyrir takmarkaðan rétt,“ sagði lögmaður OR í málflutningi sínum og benti sérstaklega til þess að einn dómari Hæstaréttar í því máli sem þetta orðalag væri tekið úr væri einmitt Jón Steinar sjálfur, sem nú væri verjandi Hrafns. Sagði hún ljóst að Ísland væri lítið land.

Ítrekaði lögmaður OR nokkrum sinnum að þótt Alfreð hafi sagst velviljaður málinu og sent það áfram til lögmanns fælist ekki neinn samningur í því. Þá hefði stjórnarformaður ekki réttindi til að semja um einstaka málefni, heldur væri það stjórnar í heild eða þá forstjóra og framkvæmdastjóra eftir því sem átti við.

Búast má við niðurstöðu héraðsdóms í málinu á næstu 1-2 mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert