Vilja kjörstaði áfram í Seljahverfi

Ölduselsskóli í Seljahverfi.
Ölduselsskóli í Seljahverfi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram tillögu um að í komandi forsetakosningum verði kosið í Seljahverfi eins og gert hefur verið undanfarna áratugi.

Á fundi borgarráðs í síðustu viku samþykktu fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri Grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina að ekki yrði kosið í Seljahverfi að þessu sinni vegna framkvæmda í Ölduselsskóla og að þær kjördeildir sem þar áttu að vera flyttust í íþróttamiðstöðina við Austurberg. Vegna framkvæmdanna yrði aðkoma erfið að skólanum og aðstaða fyrir starfsfólk óviðunandi.

„Það kom svolítið flatt upp á mig. Við spurðum hvort það væri ekki hægt að kjósa í Seljaskóla í staðinn en fengum upplýsingar um að það væri ekki heldur hægt að kjósa þar,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Engar haldbærar skýringar

„Það fannst okkur ótrúlegt en fengum engar haldbærar skýringar um það á fundinum af hverju það væri þörf á að samþykkja tillöguna. Við eigum að standa þannig að kosningunni að sem flestir eigi þess kost að sækja kjörstað. Það eru ekki allir á bíl og það er hætta á því að eftir því sem kjörstöðum fækkar þá dragi úr aðsókn,“ segir Kjartan og bætir við að töluverður spölur sé að fara úr Seljahverfi í Austurberg, sem yrði eini kjörstaðurinn í Breiðholti.

Kjartan segist hafa kannað málið frá síðasta borgarráðsfundi og komist að því að það sé vel hægt að kjósa í Seljahverfi. Framkvæmdirnar í Ölduselsskóla séu ekki það umfangsmiklar að ekki sé hægt að kjósa þar. Einnig sé mögulegt að kjósa í Seljaskóla.

Lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins því fram þá tillögu á nýafstöðnum fundi borgarráðs um að íbúum Seljahverfis verði gefinn kostur á að sækja kjörstaði í hverfinu eins og löng hefð er fyrir. Ef ekki verður hægt að starfrækja kjördeildir í Ölduselsskóla verði kjördeildum komið á laggirnar í Seljaskóla.

Tillögunni var vísað til meðferðar í borgarráði sem tekur málið væntanlega fyrir á fundi sínum í næstu viku. 

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert