Rétt að miða við framfræslukostnað

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Tekist var á um kjör íslenskra námsmanna erlendis á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins. Stjórnarandstæðingarnir Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, og Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, beindu fyrirspurnum í þeim efnum að Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra.

Gagnrýndi þingmennirnir harðlega skerðingu lána til námsmanna erlendis og spurði Björt hvort þeir einu ættu að geta menntað sig erlendis sem ættu peninga eða foreldra sem gætu stutt þá. Illugi sagðist sammála þingmönnunum um mikilvægi náms erlendis. Sjálfur hefði hann eins og fleiri sótt hluta síns náms erlendis. Málið snerist ekki um það heldur um þá grundvallarstefnu sem Lánasjóður íslenskra námsmanna ætti að miða við í þessum efnum.

Sjálfur sagðist ráðherrann telja eðlilegast að miða við framfærslugrunninn í viðkomandi landi og lána í samræmi við það. Staðreyndin væri sú að skil hefðu orðið á undanförnum árum á milli þess sem hafi verið lánað og framfærslugrunninn. Tók hann Ungverjaland sem dæmi. Þar hefði lán til framfærslu verið komið 60% fram yfir áætlaðan framfærslukostnað. Ef menn teldu rétt að miða við eitthvað annað þyrfti einfaldlega að ræða málin og finna lendingu.

Ásta Guðrún sagði stúdentagarða í ríkjum í Austur-Evrópu vera félagslegt úrræði og ekki sambærilegt við aðstæður hér á landi og sem erfitt væri að komast inn í. Því væri framfærslugrunnurinn sem miðað væri við algerlega vanmetinn. Illugi sagði framfærslugrunninn bestu fáanlegar upplýsingar. Þess utan hefðu námslán til námsmanna erlendis verið hækkuð um 20% fyrir nokkrum árum á sama tíma og skorið hefði verið niður til grunnskólanna.

Oddný sagði efasemdir uppi um jafnrétti til náms í ljósi ákvörðunar stjórnar LÍN að lækka lán til námsmanna erlendis og spurt hvort menntun sé orðinn að eins konar munaði sem standi í sumum tilfellum aðeins þeim efnaðri til boða. Illugi spurði á móti hvort ekki væri eðlilegt út frá sjónarmiði jafnaðar að öllum væri lánað miðað við framfærslukostnað í stað þess að sumir nemendur fengju langt umfram það sem metið væri nauðsynlegt til framfærslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert