Salan hefði skilað 70 milljörðum

Landsbankinn
Landsbankinn mbl.is/Hjörtur

Í fjárlögum fyrir þetta ár var áætlað að sala ríkisins á 30% eignarhlut í Landsbankanum myndi skila á milli 71-72 milljörðum í ríkissjóð. Í gær tilkynnti Bankasýsla ríkissns að söluferlið yrði endurskoðað og myndi þar af leiðandi frestast.

Frétt mbl.is: Söluferli Landsbankans frestað

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, segir þetta gleðitíðindi þar sem viðbrögð markaðarins undanfarið, eftir að tilkynnt var að fara ætti í sölu á eignum sem fengjust í gegnum stöðugleikaframlagið, hafi gefið til kynna að ekki fengist fullt verð fyrir eignir ríkisins.

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður nefndarinnar, segir að ríkissjóður sé enn skuldsettur og með því að greiða meira niður af skuldum sé komist hjá því að greiða frekari vexti og þá verði ríkissjóður ekki jafn viðkvæmur fyrir ytri áhrifum.

Bæði segja þau að ákvörðun Bankasýslunnar muni ekki hafa áhrif á útgjöld ríkisins, enda hafi í síðustu viku verið kynnt betri afkoma ríkissjóðs en áætlað var.

Vigdís segir að væntingar á markaði undanfarið hafi leitt til mikillar lækkunar í Kauphöllinni. Segist hún vona að ákvörðun Bankasýslunnar verði til þess að skapa jafnvægi á markaðinum að nýju. Segir hún ríkinu bera að hámarka hagnað sinn af eignasölu og miðað við hvernig markaðurinn brást við fréttum um að selja ætti eignir með hraði var ljóst að það myndi ekki nást. „Þetta eru því mjög jákvæðar fréttir,“ segir Vigdís.

Guðlaugur segir að horfa þurfi til þess að vaxtagreiðslur ríkisins séu þriðji stærsti útgjaldaliðurinn. Bendir hann á að ekki sé óalgengt að vextir af slíkum lánum séu 3-5%, án þess þó að geta fullyrt að það eigi við um þau lán sem hægt hefði verið að greiða niður með Landsbankapeningunum.  Það eru um 2,1-3,6 milljarðar í árlega vexti sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir með að nota fjárhæðina til niðurgreiðslu skulda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert