WOW air fer jómfrúarflugið til Montréal

Í tilefni af fyrsta fluginu klipptu Skúli Mogensen forstjóri WOW …
Í tilefni af fyrsta fluginu klipptu Skúli Mogensen forstjóri WOW air og Hlynur Sigurðsson framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á borða.

Fyrsta áætlunarflug WOW air til Montréal fór í dag og 11. maí mun félagið fljúga fyrsta flug sitt til Toronto. Flogið verður allan ársins hring til þessara kanadísku borga. Vegna mikillar eftirspurnar var tíðni flugferða til bæði Montréal og Toronto aukin, að því er segir í fréttatilkynningu WOW air og jómfrúarflugum flýtt um viku til beggja áfangastaða.

Samkvæmt upphaflegri áætlun átti að fljúga fjórum sinnum í viku til Montréal en nú verður flogið fimm sinnum í viku. Flogið verður til Toronto sex sinnum í viku en upphafleg áætlun var fjögur flug á viku.

 „Það hefur verið frábært að sjá hversu góðar móttökur við höfum fengið í Kanada og hér heima. Ég er sérstaklega ánægður að hefja núna flug til Montréal en þar bjuggum við fjölskyldan í um 8 ár og eignuðust mikið af góðum vinum. Borgin er einstök og hefur upp á margt að bjóða og veit ég að þar verður tekið vel á móti Íslendingum,“ er haft eftir Skúla Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air í fréttatilkynningu flugfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert