Búrhval rekur á land á Dalvík

Hvalurinn er um 13 metrar á lengd og mjög heillegur.
Hvalurinn er um 13 metrar á lengd og mjög heillegur. Ljósmynd/Bryndís Anna Hauksdóttir

Þegar Dalvíkingar vöknuðu í morgun hafði hval rekið á land í fjörunni neðan við bæinn og hefur í  dag verið mikil umferð barna og fullorðinna niður í fjöru til að skoða hvalinn.

Að sögn lögreglunnar á Dalvík er búið að staðfesta að um búrhveli sé að ræða. „Ég mundi giska á að þetta sé kýr eða kálfur, því hann er ekki nema um 13 metrar á lengd og um 20 tonn,“ segir Sævar Freyr Ingason hjá lögreglunni á Dalvík.

Fullvaxnir búrhvalstarfar geta orðið um 20 metrar að lengd og 40-50 tonn að þyngd og er óalgengt að sjá búrhveli í Eyjafirðinum, þar sem þeir kjósa geta komist niður á meira dýpi. Segir Sævar Freyr þetta raunar vera fyrsta hvalrekann á Dalvík af þessari stærðargráðu í þau 32 ár sem hann hefur starfað þar.

„Hvalurinn hefur væntanlega verið nýdauður þegar hann rekur hér á land því hann er það heillegur að það sér ekkert á honum.“

Verið er að skoða hvað gera eigi við hvalshræið og verður það væntanlega annað hvort dregið út og reynt að sökkva því, eða þá að það verður tekið á land og reynt að urða það, sem Sævar Freyr telur líklegri kost. „Nema að þriðji möguleikinn verði fyrir valinu og menn reyni að hreinsa af beinagrindinni og nota hana,“ segir hann, en telur þó ólíklegt að sú leið verði valin.

Mikil umferð barna og fullorðinna hefur verið í fjöruna í …
Mikil umferð barna og fullorðinna hefur verið í fjöruna í dag til að skoða hvalinn. Ljósmynd/ Bryndís Anna Hauksdóttir



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert