Forsetinn á ekki að vera ópólitískur

Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti framboð sitt í dag.
Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti framboð sitt í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Forseti Íslands á ekki að vera ópólitískur þó að hann eigi að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Þetta segir Guðni Th. Jóhannesson, forsetaframbjóðandi. Hann segist þeirrar skoðunar að breyta eigi stjórnarskrá Íslands þannig að ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu verði sett þar inn. Með því fari stærri mál fyrir þjóðina án þess að það sé undir einum manni komið hvort þjóðin fái lokaákvörðunarvaldið.

Feiminn og óviss um eigið ágæti á unglingsárunum

Guðni kynnti forsetaframboð sitt í Salnum í Kópavogi í dag. Mikið fjölmenni var á staðnum og þurftu sumir gestir að fylgjast með utanfrá. Í samtali við mbl.is eftir fundinn sagði Guðni að fjöldinn hafi bæði komið sé á óvart og ekki á óvart. „Við vissum að hann yrði vel sóttur. En auðvitað fyllist maður auðmýkt þegar maður sér svona marga saman komna til að lýsa fylgi við mann í þessari baráttu framundan,“ segir hann.

Guðni segir best að lýsa tilfinningunni þegar hann sá allan fjöldann sem var mættur á fundinn með upprifjun frá fyrri tímum: „Ég var á unglingsárum eins og margir aðrir feiminn og óviss um eigið ágæti og spurði mig hvort eitthvað yrði úr manni. Það hvarflaði að mér þarna frammi hvað það gæti verið gaman að hverfa aftur í tímann og segja við þennan unglingsstrák sem þá var, hafðu engar áhyggjur þetta mun allt fara vel.“

Fjölmenni var á fundinum.
Fjölmenni var á fundinum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Lenti óvænt í sviðsljósi fjölmiðlanna

Aðspurður um hvenær hann hefði tekið ákvörðun um framboðið segir Guðni að þegar núverandi forseti hafi tilkynnt í nýársávarpi sínu að hann myndi láta gott heita hafi þó nokkrir komið að máli við hann og hvatt til framboðs. „Þá satt að segja gaf ég því ekki mikinn gaum, en svo þróuðust mál þannig að ég lenti óvænt í sviðsljósi fjölmiðlanna og uppfrá því skapaðist mikil bylgja áskorana og hvatningarorða. Þar sem ég vissi að ég byggði yfir þeirri þekkingu og reynslu sem til þyrfti þá fór ég að íhuga þetta mun alvarlegra en áður,“ segir Guðni og bætir við að hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að láta til skara skríða ásamt vinum og samherjum.

Með ákvörðun forsetans um að bjóða sig fram á ný hafi hann aftur á móti þurft að hugsa sitt ráð á ný. Aftur var niðurstaðan sú að hann taldi sig jafn sannfærðan og áður um að þau sjónarmið sem hann stæði fyrir ættu erindi við kjósendur.

Þýðir ekki að forsetinn eigi að vera utan við hið pólitíska svið

Í ræðu sinni í Salnum í dag talaði Guðni meðal annars um að forsetinn þyrfti að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Aðspurður hvort hann telji slíkt skorta hjá núverandi forseta segir Guðni svo ekki vera. Segir hann alla forseta þjóðarinnar á heildina litið hafa staðið sig ágætlega og tekist oftast að gegna sameiningarhlutverkinu.

Þá segir Guðni rétt að stærri mál fara í dóm þjóðarinnar t.d. með þjóðaratkvæðagreiðslu og hefur hann kallað eftir breytingum á stjórnarskránni vegna þess.

En hvernig passar það að forsetinn sé bæði sameiningartákn og um leið að hann vilji breyta stjórnarskrá og vera þar með pólitískur? Segir Guðni að Íslendingar eigi að geta horft til Bessastaða og hugsað að forsetinn sé þjóðarleiðtogi allra og hygli ekki einum umfram aðra og sé að því leiti sameiningartákn. „Auðvitað þýðir það ekki að forseti eigi að vera utan við hið pólitíska svið og ekki segja neitt né gera nokkurn skapaðan hlut sem hann heldur að styggi einhvern. Þannig sameiningartákn þurfum við alls ekki og höfum reyndar aldrei haft.“

Guðni ásamt fjölskyldu sinni.
Guðni ásamt fjölskyldu sinni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Illt ef þingi beri ekki gæfu til að breyta stjórnarskránni

Aðspurður hvort hann geri ráð fyrir að nota neitunarvald forsetans meira en Ólafur Ragnar hefur gert hingað til segir Guðni ólíklegt að svo verði. „Mér þætti ólíklegt ef ég næ kjöri að ég myndi beita því í ríkari mæli en Ólafur Ragnar Grímsson því ég er sannfærður um að við eigum að breyta stjórnarskrá þannig að í stjórnarskrá komi ákvæði um rétt tiltekins fjölda kjósenda að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál. Við eigum ekki að þurfa þetta millistykki að forsetinn ákveði upp á sitt einsdæmi hvort rödd fólksins fái að ráða eða ekki. Þessa breytingu þurfum við að knýja í gegn.“

Hlutverk forsetans í því ferli er þó ekki endilega mikið að sögn Guðna og segist hann treysta öðrum til að leiða það til lykta. „Ég trúi því og treysti að þingið sjái sóma sinn í því að ljúka því verki sem þegar er hafið. Vænti þess að málamiðlanir þurfi og fyrir liggja tillögur um breytingar á stjórnarskrá og þar á meðal um breytingar á stjórnarskrá og illt þætti mér ef meirihluti þings myndi ekki bera gæfu til að hrinda þessari sjálfsögðu breytingu á stjórnarskránni í framkvæmd,“ segir Guðni.

„Ein mesta alvörustund lífs míns.“

Á fundinum í dag sló Guðni á létta strengi í ræðu sinni og grínaðist nokkrum sinnum. Aðspurður hvort grín og alþýðulegt fas sé eitthvað sem hann leggi áherslu á í kosningabaráttu sinni segir Guðni að í öllu blandist saman grín og alvara. „Ég vil vera ég sjálfur, finnst gaman að slá á létta strengi þegar það á við, en öllu gamni fylgir alvara og þessi dagur í dag er líklega ein mesta alvörustund lífs míns.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert