Leysa út annarra manna lyf

Arnaldur Halldórsson

Dæmi eru um að ávana- og fíknilyf séu leyst út í apótekum án vitneskju þeirra sem þau eru ávísuð á, en slík atvik hafa oftar komið upp eftir að lyfjagagnagrunnur embættis landlæknis komst í fulla notkun síðastliðið haust.

Ung kona lenti í því nýlega að þegar hún ætlaði að leysa út lyfseðil í apóteki var henni sagt að lyfið hefði verið leyst út tveimur vikum áður í öðru apóteki sem hún hafði ekki verslað við í um átta ár. Einhver hafði tekið út lyfin hennar í lúgu bílaapóteksins í Kópavogi en nóg var að segja kennitölu til að fá lyfin leyst út. Konunni var verulega brugðið við þetta og þykir verulega óþægilegt að einhver hafi lyfin hennar undir höndum, með öllum persónuupplýsingum um notkun, kennitölu og nafn. Hún er nú búin að loka aðgangi að lyfjagáttinni sinni þannig að ekki er hægt að fá afhent lyf á hennar kennitölu nema með því að sýna skilríki.

Erfiðara að ganga á milli lækna

Ólafur B. Einarsson, verkefnisstjóri lyfjamála hjá landlækni, segir að atvikum af þessu tagi hafi fjölgað eftir að læknar fengu aðgang að lyfjagagnagrunninum. „Það er svolítið síðan lyfjagagnagrunnurinn var tekinn í notkun en það var ekki fyrr en síðasta haust sem grunnurinn var orðinn það góður að læknar gátu farið að nota hann að einhverju viti. Núna er hann með nánast öllum upplýsingum en í haust bættust við pappírslyfseðlar til viðbótar við rafræna lyfseðla,“ segir Ólafur.

Í lyfjagagnagrunninum hafa læknar aðgang að lyfjasögu sjúklinga sinna og því er orðið erfiðara fyrir þá sem misnota ávana- og fíknilyf að ganga á milli lækna til að fá lyfjunum ávísað. Því fara þeir þá leið að hafa uppi á kennitölum fólks sem þarf á þessum lyfjum að halda og taka þau út á nafni þess, án vitneskju þess.

Tuttugu kennitölur sem hafa verið misnotaðar hafa komið inn á borð til Ólafs síðasta hálfa árið en hann grunar að atvikin séu miklu fleiri en þau hjá landlækni heyri af. „Þetta gerist yfirleitt á tvo vegu; einstaklingurinn fer sjálfur til læknis og fær sínum lyfjum ávísað í gáttina en grípur svo í tómt þegar hann kemur í apótek. Svo er líka hringt í lækna undir fölskum formerkjum, einhver þykist vera sá sem þarf lyfin og fær uppáskrift og leysir út. Einstaklingurinn hefur oft ekki hugmynd um að lyf hafi verið leyst út í hans nafni.“

Þegar þetta uppgötvast kemur fólk ekki endilega af fjöllum. „Oftast er það þannig að þetta eru einstaklingar innan sömu fjölskyldunnar, sá sem stelur lyfjunum þekkir til þess sem þarf á lyfjunum að halda og veit hvaða læknum hann er hjá. Einnig er Facebook-síða yfir hóp af fólki sem þjáist af ákveðnum sjúkdómi. Þar tjáir fólk sig um hvaða lækni það er hjá og við höfum upplýsingar um að það hafi verið notað til þess að komast að því hvaða lækna á að hringa í.“

Uppgötvast í apótekunum

Lyfjastuldur á þennan hátt hefur verið kærður til lögreglunnar og eru slík mál til rannsóknar þar núna. Þessi misnotkun uppgötvast oftast í apótekunum, dæmi eru um að starfsfólk í apótekum átti sig á aðstæðum og hringi á lögregluna svo að þjófurinn er gripinn á staðnum og þá eru mörg apótek með myndavélar svo að hægt er að sjá hver það er sem sækir lyfin. Í tilfelli ungu konunnar sem nefnt er hér að framan var ekki myndavél í apótekinu.

Gripið hefur verið til aðgerða til að reyna að koma í veg fyrir svona atvik. Embætti landlæknis hefur sent fyrirmæli og leiðbeiningar til allra starfandi lækna í landinu um það hvernig eigi að sporna við þessu og Lyfjastofnun hefur sent fyrirmæli til allra apóteka um hvernig eigi að vera á varðbergi. Þá geta allir farið sjálfir inn á vefsíðuna Heilsuvera.is og séð hvaða lyfjum hefur verið ávísað á þá.

Mikill lyfjavandi hér á landi

Ólafur segir að fjöldi þessara atvika komi sér ekki á óvart miðað við hvernig lyfjavandinn sé hér á Íslandi. „Við erum með mestu notkun í heiminum af þó nokkrum þessum lyfjaflokkum sem teljast til ávanabindandi lyfja þannig að þetta er stórt vandamál hér á Íslandi, sem má m.a sjá í fréttum undanfarið um notkun örvandi lyfja meðal stúdenta. Það er mikið af ávanabindandi lyfjum í umferð á svörtum markaði.“

Breyting á reglugerð

Í reglugerð um afgreiðslu lyfseðla, áritun og afhendingu lyfja segir að viðtakandi lyfs sem afgreitt er gegn símalyfseðli skuli staðfesta móttöku þess með því að rita nafn sitt á bakhlið lyfseðilsins og framvísa persónuskilríkjum. Þá segir að sá sem afhendir sjúklingi eða umboðsmanni hans lyf skuli fullvissa sig um réttmæti afhendingarinnar. Ekkert í reglunum kemur í veg fyrir að hægt sé að senda annan út í apótek að sækja lyfin fyrir sig.

Í velferðarráðuneytinu liggja nú fyrir drög að breytingum á þessari reglugerð þannig að kvitta eigi fyrir móttöku allra lyfja og sýna skilríki; með því verði alltaf vitað hver sækir lyfin. Sum apótek hafa sett sér þessar vinnureglur nú þegar.

Hægt er að hafa samband við Lyfjastofnun og biðja um að send sé tilkynning á apótek um að enginn nema maður sjálfur megi leysa út lyfin sín. Þá merkja apótekin við viðkomandi í sínu kerfi.

Ekki komast allir út í apótek og hafa verið ræddar ýmsar lausnir til að þeir sem þess þurfa geti sent annan einstakling fyrir sig. Ólafur nefnir að rætt hafi verið um að skrifað sé umboð og eins líka að viðkomandi mæti með persónuskilríki þess sem á að fá lyfið, dæmi séu um slíkar reglur erlendis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert