„Öllu blandað saman, þar gerast töfrarnir“

Harper Reed fór yfir allt frá söfnun gagna yfir í …
Harper Reed fór yfir allt frá söfnun gagna yfir í friðhelgi einkalífsins og pólitík á vinnustaðnum. mynd/Þorsteinn Ásgrímsson

Næsta stóra málið í tæknigeiranum verður þegar risagagnasöfn (e. Big data), skýjaþjónusta, vélbúnaður og fleira blandast saman og skapar framtíðina. Sumir hafa sagt lýst þessu sem gervigreind, en hún er þó aðeins hluti af þessari blöndu. Þetta segir Bandaríkjamaðurinn Harper Reed, en hann var meðal fyrirlesara á ráðstefnu Reiknisstofu bankanna í gær í Hörpu þar sem upplýsingatæknimál voru rædd.

Yfirmaður hjá Paypal og stýrði tæknimálum fyrir Obama

Reed er yfirmaður hugbúnaðarþróunar hjá Paypal, en áður seldi hann fyrirtæki sitt til félagsins. Þá var hann í fjögur ár stjórnandi Threadless fatahönnunarsölufyrirtækisins og árið 2011 varð hann yfirmaður tæknimála fyrir seinni kosningabaráttu Barack Obama.

Það liggur því beint við að spyrja Reed hvort hann hafi einhverjar ábendingar fyrir verðandi frambjóðendur í bæði forseta- og þingkosningum hér á landi. Hann segir erfitt að svara slíku, enda sé bæði mismunandi milli Íslands og Bandaríkjanna hvernig lagaumhverfi sé og hvað virki.

„Þá færðu fólk til að gera alla vinnuna fyrir þig

Þannig segir hann að miðað við löggjöf í Evrópu hafi margt að því sem teymið hans í kringum baráttu Obama ekki verið leyfilegt þar. Hafði hann í ræðu sinni meðal annars lýst því hvernig þeir söfnuðu upplýsingum af samfélagsmiðlum til að finna út persónulegt viðmið fyrir hvern og einn mögulegan styrktaraðila þar sem fjölmörg gagnasöfn voru notuð til að giska á þá upphæð sem viðkomandi væri til í að styrkja framboðið. Með þessu tókst þeim að safna hundruðum milljóna dala að sögn Reed.

Mikilvægast sé þó fyrir frambjóðendur að finna út hvernig þeir eigi að koma á persónulegu sambandi við kjósendur. Það sé hægt á marga vegu, meðal annars með að setja mikinn kraft í grasrótarhreyfingar. „Þá færðu fólk til að gera alla vinnuna fyrir þig og notar kraft þeirra til að búa til spennu og ákafa fyrir framboðið,“ segir Reed.

„Prófa, prófa og prófa“

Nefnir hann að frambjóðendur ættu að setja kraft í miðla á borð við Twitter, Facebook, Snapchat, Instagram eða jafnvel tölvupóst, eftir því hvar þeirra markhópur liggur. Segir hann að fólk í dag læri að kynnast frambjóðendum í gegnum þessa miðla og komist að því hvort því líki við frambjóðendur eða ekki.

Mikilvægast af öllu er þó að hans sögn að prófa hlutina. „Prófa, prófa og prófa. Þú vilt ekki setja eitthvað í loftið og vona að það virki. Þú vilt vita að það virki,“ segir Reed.

25 ára tilheyrir „eldri“ kynslóðinni

Í erindi sínu á ráðstefnunni fór Reed meðal annars yfir friðhelgi einkalífsins, en ljóst var að hann taldi hugsun fólks í þeim efnum oft byggja á gömlum hugmyndum sem ættu ekki við lengur. Þannig sagði hann að þessi viðmið skiptust oft upp milli „yngri“ og „eldri“ kynslóða, þar sem skiptingin var 25 ára aldurinn. Þeir sem væru í yngri hópnum teldu eðlilegt að deila gögnum og fá þannig tæki sem auðvelduðu því lífið meðan eldri hópurinn væri íhaldssamari.

Aðspurður hvort hann teldi fólk eiga að óttast minni friðhelgi sagði hann að auðvitað þurfi fólk að huga að persónuvernd og öryggi, „en á sama tíma megum við ekki búa til reglur sem passa ekki við raunveruleikann í dag,“ segir hann og bætir við: „Með persónuverndarlögum reynum við eldra fólkið að búa til reglur fyrir yngra fólkið og það eru oft reglur sem búa til fleiri vandamál,“ segir hann.

Reed segir að löggjafinn eigi í auknum mæli að leggja meiri fjármuni í fræðslu um gagnaöryggi og siðferðiskennslu í kringum tækni og tæknilausnir.

„Öllu blandað saman, þar gerast töfrarnir

Eins og ferilskrá Reed gefur til kynna hefur hann víða komið við í tæknigeiranum. Aðspurður hvað verði næsta stóra atriði segir hann að undanfarin ár hafi menn séð stór málefni skjótast upp og verða stóru atriðin. Það eigi við um risagögn, skýjaþjónustu, dróna og allskonar vélbúnað og nú sé gervigreind að hasla sér völl. „En næstu skref verða þegar þetta verður allt sett saman. Það verður þegar við förum að sjá áhugaverða hluti. Öllu blandað saman, þar gerast töfrarnir og þannig verður framtíðin,“ segir Reed.

Nefnir hann sjálfkeyrandi bíla sem dæmi um þetta, en að þeir séu aðeins eitt af mörgu sem muni breyta lífi fólks mikið á komandi árum. Ítrekar hann að í þessu samhengi sé nauðsynlegt að koma kennslu um siðferði og tækni í kennsluefni barna eins fljótt og auðið er. „Í dag hugsar ungt fólk bara um hvað sé töff en ekki siðferðið á bak við tæknina,“ segir Reed.

Ráð um pólitíkina á vinnustaðnum

Í erindi sínu á ráðstefnunni kom Reed með nokkur ráð til fólks í tæknigeiranum sem reyndar eiga líka við í mörgum öðrum greinum. Fyrsta atriðið sem hann nefndi var pólitík. Þó ekki pólitík í hinum hefðbundna skilningi, heldur stjórnmál á vinnustaðnum. Sagðist hann hafa fengið gott ráð frá vini sínum eitt sinn. Það væri á þá leið að skynja umhverfi sitt út frá úthólfinu en ekki innhólfinu í tölvupóstinum. Þ.e. að best væri að senda fólki póst en ekki bíða eftir svörum endalaust.

Nefndi hann dæmi um samstarfsmann sinn sem honum hafi ekkert líkað allt of vel við og samskiptin milli þeirra verið nokkuð erfið. Reed ákvað að prófa þetta og sendi viðkomandi tölvupóst með upplýsingum um stöðu verkefnisins og fékk strax svarpóst þar sem þakkað var fyrir upplýsingarnar og að viðkomandi kynni að meta þær. „Pólitíkin á vinnustaðnum er oft vegna skorts á samskiptum,“ sagði hann.

Notið Excel

Næsta atriði sem hann nefndi var að þrátt fyrir að vera mikill Linux notandi og nörd, þá væri besta ráðið fyrir þá sem væru að notast við mikið af gögnum að nota forritið Excel. Eina sem þyrfti að hafa í huga væri að geta treyst gögnunum. Ef þau væru traust væri góður töflureiknir besta lausnin.

Þá sagði Reed einnig að fólk sem ynni með tölur og gögn daginn inn og daginn út þyrfti að átta sig á því að einn punktur í gögnum væri oft táknmynd einstaklings. Sagði hann mikilvægt að gleyma því aldrei.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert