„Velkominn undan feldinum“

Forsalur Tónlistarhúss Kópavogs í Hamraborg var troðfullur í dag þegar Guðni Th. Jóhannesson, forsetaframbjóðandi, tilkynnti um framboð sitt og kynnti sig fyrir þjóðinni. Fjöldi fólks þurfti að fylgjast með fundinum gegnum glugga hússins þar sem rými innandyra var af skornum skammti og einhverjir hurfu á braut þar sem erfitt var að komast að þó enn væri talsvert í fundinn.

Blaðamaður mætti í Salinn þegar um hálftími var í að fundurinn hæfist og var með síðustu gestum sem komst inn. Meira að segja bróðir frambjóðandans, Patrekur Jóhannesson, fylgdist með lengi vel fyrir utan innganginn. Myndaðist fljótlega talsverð kös fyrir utan og hélst þannig þangað til fundurinn var á enda. 

Fundurinn hófst á því að ljóðskáldið og vinkona Guðna, Gerður Kristný, bauð fólk velkomið og kallaði Guðna næst á svið með orðunum „Velkominn undan feldinum“ við mikinn fögnuð viðstaddra. Til skiptis mátti svo heyra lófaklapp eða hlátur í salnum, enda kom Guðni nokkrum sinnum gríni að í ræðu sinni.

Guðni mætir á fundinn í dag. Mikill fjöldi fólks var …
Guðni mætir á fundinn í dag. Mikill fjöldi fólks var í salnum og þurftu margir að fylgjast með að utan.

Mbl.is spurði nokkra viðstadda hver væri ástæða þess að þeir hefðu mætt á fundinn. Halldór Árnason úr Reykjavík, sagði að hann hefði komið þar sem honum litist vel á Guðni. „Hann hefur þekkingu reynslu og mannkosti sem til þarf í þetta embætti. Það er mjög mikilvægt lýðræðisins vegna að skipta um forseta núna,“ sagði Halldór og bætti við að hann teldi núverandi forseta hafa setið of lengi og þyrfti að víkja vegna annarra mála sem hann tengdist.

Þorgerður María Halldórsdóttir segist vilja sjá breytingar. „Ég vil sjá nýjan forseta og fá tækifæri til að geta loksins kosið mér forseta sem ég hef trú á og treysti. Mér finnst Guðni vera sá maður.“ Albert Guðmundsson segist hafa komið til að bera augum mann dagsins og heyra hvað hann hefði fram að bjóða. Segir hann fagna framboði hans og að gaman verði að fylgjast með honum og baráttu hans á komandi vikum. Albert segist ekki útiloka stuðning við Guðna.

Ómögulegt var að komast mikið lengra en í andyrið uppi.
Ómögulegt var að komast mikið lengra en í andyrið uppi.

Sigurveig Fjelsted segist vilja sjá breytingar á Bessastöðum. „Það er ótækt að einn forseti sitji í 24 ár eins og Ólafur Ragnar ætlar sér.“ Segist hún telja að setja ætti hámarksfjölda kjörtímabila sem þrjú og að henni lítist vel á hugmyndir Guðna um setja ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu í stjórnarskrána.

Hinrik Fjelsted segist vilja annan mann í forsetaembættið. „Guðni er maðurinn í það hlutverk, gegnheill og góður drengur. Held að hann verði frábær forseti.“

Hliðarhurð var opnuð og fylgdist fólk með þar fyrir utan.
Hliðarhurð var opnuð og fylgdist fólk með þar fyrir utan.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert