Vilja opna umræðu um sjálfsvíg

Pieta gangan gegn sjálfsvígum verður gengin í nokkrum löndum samtímis. …
Pieta gangan gegn sjálfsvígum verður gengin í nokkrum löndum samtímis. Hér sést írskur gönguhópur.

Táknræn ganga gegn sjálfsvígum verður farin á vegum Pieta samtakanna nk. laugardag, þar sem gengið er „úr myrkinu yfir í ljósið“. Sigrún Halla Tryggvadóttir hjá Hugarafli segir gönguna vera farna til að vekja athygli á nokkrum mikilvægum þáttum tengdum sjálfsvígum.

„Við viljum með göngunni vekja athygli á sjálfsvígum í Íslandi, sjálfsskaða og forvörnum. Við erum einnig að minnast þeirra sem eru farnir, þeim sem enn þjást og svo aðstandenda. Við viljum opna umræðuna fyrir þessu málefni,“ segir Sigrún Halla.

Gangan er farin undir yfirskriftinni Úr myrkrinu í ljósið og verður lagt af stað klukkan fjögur, aðfaranótt laugardagsins 7. maí frá húsi KFUM og KFUK við Holtaveg í Reykjavík þaðan sem gengin verður 5 km leið. Gengið verður á sama tíma á vegum samtakanna í mörgum öðrum löndum, m.a. í Ástralíu, Bretlandi, Bandaríkjunum, sem og á Írlandi, þar sem samtökin voru stofnuð fyrir 10 árum síðan.

Sigrún Halla Tryggvadóttir segir að með göngunni vilji þau vekja …
Sigrún Halla Tryggvadóttir segir að með göngunni vilji þau vekja athygli á sjálfsvígum, sjálfsskaða og forvörnum.

Um 500-600 manns gera sjálfsvígstilraunir hér á landi árlega

Sigrún Halla segir að þeir sem eru þunglyndir, með kvíða og fólk með geðraskanir séu í meiri hættu á að stytta sér aldur en aðrir. Um 500-600 manns hér á landi geri tilraunir til sjálfsvígs árlega og það sé há tala. „Yfirleitt er um karlmenn að ræða, en konur gera fleiri tilraunir en karlar til að stytta sér aldur. Áður voru yngri karlar í mestri hættu, en aldurinn er að færast ofar og við sjáum líka að tíðnin er að aukast hjá eldra fólki,“ segir Sigrún Halla.

Hún tekur fram að sjálfsvíg séu stundum skráð sem slys og að heilbrigðiskerfið sé undir svo miklum þrýstingi að það nái ekki að sinna sem skyldi þeim einstaklingum sem eru í sjálfsvígshættu. „Við viljum búa til annan valkost, létta á geðdeildum, en markmið okkar er að veita þeim þjónustu sem eru í sjálfsvígshættu,“ útskýrir Sigrún Halla.

Maður getur ekki gengið í gegnum allt einn

Hanna Íris Guðmundsdóttir missti son sinn þegar hann stytti sér aldur 2014. Hann var fluttur að heiman og að nálgast þrítugt. Hún segir að það vanti sárlega þjónustu við aðstandendur þeirra sem fremja sjálfsvíg hér á landi. „Ég er sannfærð um að hefði þessi þjónusta verið til staðar, þá hefði þetta ekki gerst. Ég upplifði að við fjölskyldan værum eiginlega á eigin vegum eftir þetta áfall. Það kom prestur um kvöldið og seinna hafði sóknarpresturinn samband við okkur, en við þurftum að sækja alla aðstoð sem við þurftum sjálf. Fólk er varla í stakk búið til þess þegar svona áfall skellur á.“

Hanna Íris Guðmundsdóttir segir sárlega vanta þjónustu við aðstandendur þeirra …
Hanna Íris Guðmundsdóttir segir sárlega vanta þjónustu við aðstandendur þeirra sem fremja sjálfsvíg.

Aðspurð hvaða þýðingu Pieta samtökin hafi fyrir aðstendur svarar hún: „Það gefur fólki svo mikla von að sjá svona samtök sett á laggirnar.“  

Hanna Íris segir að hún eigi tvö önnur börn sem hafi verið 17 og 19 ára þegar bróðir þeirra dó. „Það þyrfti líka að vera til staðar hjálp fyrir unglinga. Það vantar úrræði fyrir þennan aldurshóp og ég tel að börnin mín eigi eftir að vinna úr þessu máli. Þau gera það seinna þegar þau eru tilbúin til.“

Hún segir að í raun þyrfti að vera til staðar teymi fyrir aðstandendur þegar dauðsföll verða óvænt með þessum hætti í fjölskyldum. „Við vorum reyndar heppin. Við fengum mikinn stuðning frá fjölskyldu og vinum, en það þyrfti að vera til staðar teymi sem fylgdi aðstandendum eftir næstu daga eftir slíkt áfall.“

Fólki í sjálfsvígshættu ekki nógu vel sinnt í heilbrigðiskerfinu

Jóhanna María Eyjólfsdóttir er formaður Pieta samtakanna í Íslandi og jafnframt aðstandandi, en barnsfaðir hennar féll fyrir eigin hendi. Hún segir samtökin eiga uppruna sinn á Írlandi og séu um 10 ára.

„Markmiðið er að setja á fót hjálparmiðstöð fyrir fólk í sjálfsvígshugleiðingum. Það vantar að þessum hópi sé nægilega sinnt í heilbrigðiskerfinu, en við munum veita þjónustu í samvinnu við heilbrigðisstarfsfólk og fagaðila. Við viljum líka geta hjálpað aðstandendum sem eru örvinglaðir vegna ástvinar sem er í sjálfsvígshættu,“ segir Jóhanna María.

„Okkur langar einnig að bjóða upp á eftirfylgni í framtíðinni og höfum kynnt það starf sem við viljum hafa fyrir alþingismönnum og fleirum. Það hefur verið tekið vel í þetta og þegar hafa borist styrkir,“ segir Jóhanna María og nefnir að  Kiwanishreyfingin ætli að styrkja miðstöðina og að þjónusta sem þessi muni hafa mikla þýðingu fyrir aðstandendur.

Yfirskrift göngunnar er úr myrkrinu yfir í ljósið og er …
Yfirskrift göngunnar er úr myrkrinu yfir í ljósið og er lagt af stað klukkan fjögur að nóttu.

Fólki vísað frá á geðdeildum

„Fólki hefur verið vísað frá á geðdeildum og og það er líka stórt skref að stíga fyrir margar að fara á geðdeild. Þarna mun fólk geta leitað aðstoðar og síðan yrði því jafnvel vísað áfram. Rauði krossinn hefur boðið símaþjónustu fyrir þá sem eru í sjálfsvíghugleiðingum, en aðstandendur upplifa að það sé ekkert úrræði fyrir þá. Það er mikilvægt að úrræði séu til fyrir þá og að þeir standi ekki einir eftir og þurfi sjálfir að hafa fyrir því að sækja sér stuðning,“ segir Jóhanna María. Tölur hafi sýnt að sjálfsvígum hafi fækkað verulega á Írlandi eftir að Pieta samtökin tóku til starfa.

Þeir sem vilja leggja starfseminni lið geta lagt inn á reikning Pieta samtakanna: 301-26-041041. Kt. 4104-160690 og hægt er að skrá sig í gönguna á www.pieta.is og hjá Hugarafli í Borgartúni 22 á föstudag milli kl.9 og 16. Nánari upplýsingar um Pieta á Íslandi má finna á www.pieta.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert