Gruna ökumanninn um ölvun

Rannsókn lögreglu á Vesturlandi á banaslysi á Holtavörðuheiði 9. apríl sl. stendur enn yfir. Beðið er eftir gögnum, meðal annars niðurstöðum úr blóðprufu og krufningu.

Grunur leikur á að ökumaður bílsins hafi verið undir áhrifum áfengis þegar hann missti stjórn á honum með þeim afleiðingum að ökutækið hafnaði utan vegar. Farþegi í aftursæti bílsins lést tveimur dögum síðar á gjörgæsludeild Landspítalans.

Bílnum var ekið eftir Holtavörðuheiði aðfaranótt laugardags. Þegar bíllinn hafnaði utan vegar kastaðist farþeginn í aftursæti bílsins, sem ekki var í bílbelti, út úr honum þegar hann fór nokkrar veltur. Farþeginn, piltur á átjánda aldursári, var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann. Ökumaðurinn og farþegi í framsæti bílsins sluppu með minniháttar meiðsli. 

Ökumaður bílsins var látinn blása í áfengismæli eftir slysið og var ákveðið að taka einnig blóðprufu þar sem niðurstöður bentu til þess að hann hefði verið ölvaður þegar hann missti stjórn á bílnum. Enn er beðið eftir niðurstöðum úr blóðprufunni.

Ökumaðurinn og farþeginn í framsæti bílsins eru í kringum tvítugt. 

Frétt mbl.is: Pilturinn er látinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert