Hrafn teflir í 30 tíma

Hrafn og Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, tefla í ráðhúsinu í morgun.
Hrafn og Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, tefla í ráðhúsinu í morgun.

Hrafn Jökulsson hóf skákmaraþon í Ráðhúsi Reykjavíkur klukkan níu í morgun. Tilgangurinn með maraþoninu er að  safna framlögum og áheitum, sem renna óskert til Fatimusjóðs og UNICEF á Íslandi í þágu sýrlenskra flóttabarna í neyð. 

Hrafn mun tefla til miðnættis í kvöld, og halda svo áfram á morgun, laugardag frá klukkan níu til miðnættis. Alls teflir Hrafn í 30 klukkustundir og skorar á alla, sem leggja vilja brýnum málstað lið, að koma í Ráðhúsið og tefla eina lauflétta hraðskák. Þá munu þjóðþekktir skemmtikraftar og listamenn troða upp á meðan maraþoninu stendur.

Fyrsti áskorandi Hrafns í morgun var Sigurður Björn Blöndal formaður borgarráðs, og hafði Hrafn betur eftir hörkuskák. Næstur í röðinni var Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sem einnig varð að játa sig sigraðan með bros á vör.

Fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar hafa þegar heitið á Hrafn, og borga á bilinu 500 til 2000 krónur fyrir hverja skák, en hann ætlar að freista þess að tefla 200 skákir. Meðal þeirra sem heita á Hrafn eru GAMMA, Landsbankinn, Íslandsbanki, Vodafone, Kvika, Vignir S. Halldórsson og Viggó Einar Hilmarsson. Einn velunnari, sem ekki vill láta nafns síns getið, mun borga 2.000 krónur fyrir hverja skák.

Fyrirtæki og einstaklingar sem vilja leggja söfnuninni lið með áheitum eða framlögum geta sent Hrafni skilaboð á Facebook eða í netfangið hrafnjokls@hotmail.com. Einnig er tekið við framlögum í Ráðhúsinu og þar er hægt að kaupa póstkort, bækur Jóhönnu Kristjónsdóttur og Hrafns Jökulssonar, og taflsett, og rennur andvirði óskipt í söfnunina.

Öll framlög renna óskert í neyðarsöfnunina, þar sem tilkostnaður er enginn og vaskur hópur sem stendur vaktina með Hrafni i Ráðhúsinu gefur vinnu sína.

Þá eru allir velkomnir í Ráðhúsið til að fylgjast með eða skora á Hrafn. Fulltrúar Fatimusjóðs og UNICEF á Íslandi kynna starf samtakanna í þágu sýrlenskra flóttabarna, og gestir fá að upplifa hvernig líf barna í flóttamannabúðum er með sýndarveruleikagleraugum. 

Hrókurinn og Skákakademía Reykjavíkur standa að viðburðinum í samvinnu við Fatimusjóð og UNICEF á Íslandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert