Hyggileg ákvörðun fyrir Árna Pál

Magnús Orri Schram segir Samfylkinguna þurfa að fara í allsherjar …
Magnús Orri Schram segir Samfylkinguna þurfa að fara í allsherjar endurskoðun á sinni starfsemi.

Magnús Orri Schram, sem gefur kost á sér til embættis formanns Samfylkingarinnar, segir óneitanlega hafa komið á óvart að Árni Páll hafi hætt við að gefa kost á sér til áframhaldandi formannssetu, enda hafi hann verið búinn að gefa annað út.

„Árni Páll hefur alltaf verið öflugur stjórnmálamaður og hann fékk svolítið snúin spil á hendi þegar hann tók við og formannskosningin á síðasta landsfundi setti hann í mjög erfiða stöðu,“ segir Magnús Orri. „Þannig að það er búin að vera svolítil brekka hjá honum í hans formannstíð og ég held að þetta sé hyggilegt ákvörðun fyrir hann.“

Nýr formaður og varaformaður munu taka við flokknum á landsfundi Samfylkingarinnar og er Magnús Orri þeirrar skoðunar að flokkurinn þurfi á slíkri endurnýjun að halda.  „Ég hef lagt á það áherslu að flokkur sem er í svona erfiðri stöðu þurfi að endurnýja í forystusveit sinni og það er nú í öðrum þræði ástæða þess að ég var hvattur til að gefa kost á mér.“

Sín skoðun sé að það sé Samfylkingunni mikilvægt að fara í allsherjar endurskoðun á sinni starfsemi. „Því það er klárlega ekki að virka það sem er að gerast í dag. Það þarf að horfa til ásýndar og talsmanns og það þarf að vera hægt að laða að nýtt fólk  inn í hreyfinguna og á framboðslista.“ Mikið starf sé því framundan. „Það er tími mikilla breytinga framundan í Samfylkingunni það er ljóst, enda svo sem ekki hægt annað því staðan í dag er óviðunandi og því erum við öll sammála.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert