Kvenstjórnendur standa í stað

Konur eru um fjórðungur stjórnarmanna fyrirtækja á Íslandi.
Konur eru um fjórðungur stjórnarmanna fyrirtækja á Íslandi. mbl.is/Golli

Eftir mikla fjölgun undanfarin ár stendur hlutfall kvenna í stjórnum stærri fyrirtækja nú nánast í stað milli ára. Um þriðjungur stjórnarmanna í fyrirtækjum með fimmtíu starfsmenn eða fleiri voru konur á síðasta ári, örlítið lægra hlutfall en árið áður samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Í lok árs 2015 voru konur 25,9% stjórnarmanna fyrirtækja sem greiða laun og skráð eru í hlutafélagaskrá, sem er hækkun upp á 0,4 prósentustig frá fyrra ári. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja var á bilinu 21,3% til 22,3% á árunum 1999 til 2006, en hefur farið hækkandi frá árinu 2007.

Árið 2015 voru konur 32,8% stjórnarmanna í fyrirtækjum með 50 starfsmenn eða fleiri, en voru 33,2% árið 2014. Til samanburðar var hlutfall þeirra í stjórnum stórra fyrirtækja 12,7% árið 2007 og 9,5% árið 1999, að því er segir í frétt á vef Hagstofunnar.

Árið 2010 voru samþykkt lög um að hlutfall hvors kyns skyldi vera yfir 40% í stjórnum fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn, og tóku þau að fullu gildi í september 2013. Hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja með færri en 50 starfsmenn hækkaði lítillega milli ára, eða úr 25,1% í 25,6%.

Hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra hækkaði lítillega frá fyrra ári, úr 21,6% í 21,9%, sem heldur áfram hægfara aukningu sem sjá má allt frá 1999, eða allan þann tíma sem gögn liggja fyrir. Hlutfall kvenna í stöðu stjórnarformanna var 24,1% í lok árs 2015, sem heldur áfram hægfara aukningu undanfarinna ára. 

Frétt á vef Hagstofunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert