Munu rokka fyrir Gulla Falk

Rokkarinn Guðlaugur Falk, eða Gulli eins og hann er kallaður.
Rokkarinn Guðlaugur Falk, eða Gulli eins og hann er kallaður. mbl.is/Þorkell

„Það verður dagskrá frá klukkan 19 til að verða tvö í nótt,“ segir Þráinn Árni Baldvinsson Skálmaldarmaður í samtali við mbl.is og vísar í máli sínu til þess að blásið hefur verið til veglegra styrktartónleika á skemmtistaðnum Spot í Kópavogi, en þeir eru haldnir til styrktar Guðlaugs Falk sem nú berst við krabbamein.   

Guðlaugur eða Gulli Falk eins og hann er einatt kallaður er landsmönnum mörgum kunnugur enda hefur hann farið fimum höndum um gítarinn í árafjölda. Er hann þannig rokkunnendum góðu kunnur fyrir starf sitt með ýmsum sveitum, þá helst Exizt, sem var iðin við tónleikahald og útgáfu á sinni tíð.

Tónleikarnir í kvöld eru ekki af verri endanum. „Það verða tvö svið og fullt af hljómsveitum - þetta verður því alger veisla, en við í Skálmöld ætlum svo að loka þessu,“ segir Þráinn Árni. Auk þeirra munu meðal annars Dimma, Sólstafir, Sniglabandið og Dúndurfréttir stíga á stokk, en einnig verða þarna Guns'n'Roses og Nirvana tribute-sveitir.

„Svo kemur einnig Gildran saman aftur. Gulli spilaði nú með þeim í gamla daga, meðal annars inn á þeirra bestu plötu“.

Búið er að stofna viðburð á Facebook og má þar nálgast allar frekari upplýsingar um tónleikana. Segir þar einnig að Gulli Falk hafi nýverið greinst með illvígt krabbamein „og berst nú við það af sama krafti og hann hefur slegist við járnin og gítarstrengina í gegnum tíðina“.

Allir þeir sem komið hafa að tónleikunum, s.s. tónlistarmenn, tæknimenn eða aðrar vinnandi hendur, hafa gefið vinnu sína. Fer því hver einasta króna sem safnast óskipt til Gulla Falk. Aðgangseyrir á tónleikana eru 3.000 krónur. 

Vert er að benda þeim sem ekki sjá sér fært að mæta á tónleikana en vilja engu að síður styrkja Gulla á styrktarreikning sem sonur hans, Árni Hrafn Falk, er búinn að stofna:

Reikningsnúmer: 513-14-1011

Kennitala: 160588-2259

Umráðamaður: Árni Hrafn Falk

Þráinn Árni Baldvinsson gítarleikari í Skálmöld.
Þráinn Árni Baldvinsson gítarleikari í Skálmöld. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert