Taka skýrslu af þolanda og gerendum

Fórnarlambið og að minnsta kosti tveir gerendur eru sagðir vera …
Fórnarlambið og að minnsta kosti tveir gerendur eru sagðir vera nemendur í Austurbæjarskóla mbl.is/Sigurður Bogi

Framkvæmdastjóri Barnaverndarnefndar Reykjavíkur segir líkamsárás sem unglingsstúlka varð fyrir í vikunni við Langholtsskóla mjög alvarlegt mál en árásin tengist einelti sem fórnarlamb árásarinnar hefur orðið fyrir. Málið er nú í rannsókn hjá lögreglu og er það komið á borð Barnaverndarnefndar.

RÚV birti í gærkvöldi myndband af árásinni sem átti sér stað á þriðjudaginn. Sam­kvæmt RÚV bar árás­ina að með þeim hætti að stúlk­an, sem flutt­ist úr Lang­holts­skóla í Aust­ur­bæj­ar­skóla um ára­mót­in, fékk skila­boð þar sem hún var spurð að því hvar hún væri stödd, en stuttu síðar komu þangað fjór­ar ung­lings­stúlk­ur og réðust á hana.

RÚV hef­ur eft­ir föður stúlk­unn­ar að hún hafi þolað mikið einelti í Aust­ur­bæj­ar­skóla en fund­ur með skóla­stjóra og náms­ráðgjafa hefði ekki borið ár­ang­ur.

Fyrri frétt mbl.is: „Komum þetta er nóg“

Byrja á því að tala við þolandann

Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndarnefndar Reykjavíkur segir að fyrsta skrefið í svona málum sé yfirleitt að skýrsla sé tekin af þolendum og gerendum og eru þær skýrslutökur nú í gangi. „Þetta er nýtilkomið mál en nú er verið að taka skýrslur og reyna að ná utan um málið. Það þarf að skoða hvort þetta sé búið að vera langvarandi ástand og hvað sé búið að reyna,“ segir Halldóra í samtali við mbl.is. „Í upphafi er ekki hægt að gera annað en að skoða mál hvers og eins barns fyrir sig en hlúa sérstaklega vel að þolanda.“

Aðspurð hvernig það er gert segir hún að fyrst og fremst sé lögð áhersla á áfallastuðning með aðstoð sálfræðinga. „Ef barnið er þegar tengt við sálfræðing er skoðað hvort að það sé hægt að nýta það. Við skoðum líka hvort að Barnahús gæti verið leið fyrir þetta barn. Á sama tíma er reynt að skoða málefni gerendanna en að öllu jöfnu byrjum við á að taka skýrslu af þolanda og svo geranda í framhaldi.“

Með alvarlegri málum

Halldóra segir það alveg algengt að tilkynningar vegna eineltismála og ofbeldis gagnvart börnum komi á borð nefndarinnar en segir alvarleg mál eins og þessi ekki algeng. „Þyngstu málin eins og þetta eru ekki mörg á hverju ári en þau koma upp af og til. Við fáum stundum tilkynningar frá slysadeild eftir að börn koma þangað eftir að hafa verið meidd á skólalóð eða leið úr skóla og segja það útaf einelti.“

Hún leggur áherslu á að þetta mál sé með þeim alvarlegri sem komið hefur á borð nefndarinnar síðustu ár. „Það er mjög alvarlegt að sjá svona stóran hóp ráðast með líkamlegu ofbeldi að einum það harkalega að vitni geta varla skorist inn í.“

Eins og fram hefur komið náðist árásin á myndband og segir Halldóra að nefndin geti nýtt sér það. „Auðvitað er það lögreglan sem notar það fyrst og fremst sem vitnisburð í málinu en starfsmenn og meðferðaraðilar nýta það líka.“

Ekki endilega lausn að fjarlægja börn úr skólanum

Hún segir að búið sé að ræða við skólastjórnendur í skólanum þar sem fórnarlambið og að minnsta kosti tveir gerendur eru nemendur. Stundum er hægt að mynda sérstakan starfshóp í kringum mál af þessari stærðargráðu og marka einhverja sérstaka stefnu.

„Það er mikilvægt að fulltrúar skóla, barnaverndar og foreldrar hittist og fari yfir þau úrræði sem standa til boða fyrir alla. Ég veit að umræðan er oft þannig að fólk vilji að börn verði fjarlægð úr skólanum en oft er það ekkert lausnin í sjálfu sér,“ segir Halldóra. „Ég skil vel ótta fólks og foreldra gagnvart því að horfa á svona myndband og velta margir fyrir sér hvað gerist ef þeirra barn lendir í þessu varnarleysi þolandans."

Eins og fyrr segir eru skýrslutökur hafnar og verður málinu fylgst vel eftir. „Þetta er litið mjög alvarlegum augum af öllum aðilum og er allur vilji til þess að hjálpast að við að ná utan um vandamálið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert