Tveggja stafa hitatölur á morgun

Veður fer hlýnandi um helgina.
Veður fer hlýnandi um helgina. Ómar Óskarsson

Veður fer hlýnandi víða um land á morgun og hiti kann að fara upp í 12-13 stig þar sem hlýjast er sunnanlands. „Við vonum bara að vorið sé á leiðinni,“ segir Þorsteinn Jónsson veðurfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands.

Frekar úrkomulítið verður á morgun, skýjað með köflum og vindur frekar hægur, en þó verður eitthvað um skúrir sunnanlands.

Á Norðurlandi hefur vetur konungur þó ekki alveg sleppt takinu og í kvöld kemur bakki úr norðri sem fylgir snjókoma og skafrenningur á Mývatns- og Möðrudalsöræfum í kvöld og nótt.  Norðvestan vindur allt að 10-15 m/s og skefur í skafla á veginum.  Bleytusnjór eða krapi verður víða á láglendi s.s. við Siglufjörð og Ólafsfjörð og eins með ströndinni við Húsavík og þar fyrir austan.  Rofar mikið til snemma í fyrramálið, þó hiti nái ekki nema 4-5 stigum yfir daginn og gera má ráð fyrir næturfrosti.

Veður fer þó einnig hlýnandi norðanlands á sunnudag. „Það fer heldur að hlýna frá og með sunnudeginum. Vestlægar og suðvestlægar áttir bera inn heldur hlýrra loft yfir landið og hrekja þetta kalda loft á undan sér,“ segir Þorsteinn.

Suðvestan átt kemur yfir landið eftir helgi. Skýjað verður suðvestanlands í byrjun vikunnar og einhver smá væta, en hitinn er heldur á uppleið.  Búast má þó við strekkingi á Vestfjörðum og  á Norðvesturlandi, en víða verði hægur vindur annars staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert