Steingrímur áfram en Kristján hættir

Steingrímur J Sigfússon kveðst ekki vera á útleið úr pólitík.
Steingrímur J Sigfússon kveðst ekki vera á útleið úr pólitík. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég er ekki að hætta í pólitík og aðspurður segist ég munu verða áfram í slagnum,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi formaður flokksins. Hann hefur setið á Alþingi frá árinu 1983, lengst allra núverandi fulltrúa á þingi.

Steingrímur var fyrstu sextán ár sín á þingi fulltrúi Alþýðubandalagsins í Norðurlandskjördæmi eystra en frá 1999 þingmaður VG, síðastliðin þrettán ár í Norðausturkjördæmi.

Hjá Vinstri grænum í NA-kjördæmi er undirbúningur fyrir þingkosningarnar í haust nú að hefjast. Þar verður sá háttur hafður á að flokksfélagar geta sent inn tilnefndingar um hverjir skipi framboðslistann. Uppstillingarnefnd listans á svæðinu mun svo vinna úr þeim tillögum.

Þá ætlar Björn Valur Gíslason, varaformaður VG, sem var þingmaður í NA-kjördæmi frá 2009-2013 en bauð sig fram í Reykjavík síðast, nú aftur í framboð nyðra, hvar hann er búsettur.

Um aðrar breytingar í stjórnmálunum er það að segja að Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, tilkynnti flokksfélögum sínum að hann sæktist ekki eftir endurkjöri í komandi kosningum. Kristján hefur setið á þingi frá 1999.

Í samtali við mbl.is um helgina sagði Kristján að sú ákvörðun að hætta hefði verið erfið en nú væri mál að linnti. „Það hefur verið gaman að hitta fólk, eiga samræður við það og vinna að framgangi mála á landsvísu,“ sagði Kristján. Hann er fjórði þingmaðurinn sem tilkynnir að hann gefi ekki kost á sér til endurkjörs í haust. Hinir eru Einar Kr. Guðfinnsson, Ögmundur Jónasson og Sigrún Magnúsdóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert