Afi barns á leikskólanum Kiðagili á Akureyri var fyrir mistök sendur heim með rangt barn fyrir nokkrum vikum. Soffía Vagnsdóttir, fræðslustjóri Akureyrar segir að röð tilviljana hafi leitt til þessarar hörmulegu niðurstöðu.
RÚV greindi fyrst frá málinu á vef sínum fyrr í dag.
„Eins og gefur að skilja þá var þetta mikil sjokk fyrir alla,“ segir Soffía. Afinn, sem er mikið fjarverandi og hittir barnið sjaldan, fór á leikskólann til að sækja barnabarnið sitt.
Hann fór hins vegar inn á vitlausa deild og gaf þar upp nafn barnsins sem hann ætlaði að sækja. Leikskólakennarinn sem tók á móti honum heyrði hins vegar annað nafn, sem var líkt, og sótti barn sem afinn taldi vera barnabarn sitt.
Afinn fór síðan heim og hálftíma síðar kom amman heim og tók þá eftir því að barnið var ekki barnabarn þeirra hjóna. Þau fóru þá með barnið til baka á leikskólann, en í millitíðinni hafði móðir barnsins, sem er tveggja og hálfs árs gamalt, komið að sækja það.
„Þetta var mikil sorg og erfitt fyrir alla,“ segir Soffía. Rætt hafi verið við bæði leikskólastarfsmenn og foreldra, sem hafi tekið afskaplega vel á málinu.
Atvikið teljist engu að síður alvarlegt, enda segi reglur til um að hver sem er eigi ekki að geta gengið inn á leikskóla og sótt hvaða barn sem er. „Í kjölfarið var farið yfir alla ferla og ítrekaðar allar reglur um það þegar börn eru sótt. Það er alveg tryggt að við gerum allt sem við getum til að þetta gerist ekki aftur.“