„Búið að leggja sálina í þetta“

Jón Sigursteinsson, bílasmiður og bílasafnari með bílana fjóra.
Jón Sigursteinsson, bílasmiður og bílasafnari með bílana fjóra. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson

„Þetta hefði verið svakalegt. Þetta eru ekki bara verðmæti, heldur hefði þetta líka verið tilfinningatjón. Það er búið að leggja sálina í þetta,“ segir Jón Sigursteinsson, bílasmiður og bílasafnari á Akureyri, í samtali við mbl.is.

Fjórir fornbílar í hans eigu, að verðmæti nokkurra tuga milljóna króna hið minnsta, voru í geymsluhúsnæði að Fjölnisgötu 6 á Akureyri þegar eldur kom upp í bílaverkstæði í húsnæðinu skömmu eftir miðnætti í nótt.

Frétt mbl.is: Reif járnið af þakinu

Líkt og mbl.is greindi frá í morgun var allt tiltækt slökkvilið Akureyrar kallað út í nótt til að berjast við eldinn. Svo virðist sem eldurinn hafi kviknað þegar maður var að rafsjóða vélarhlíf á bíl á verkstæðinu en maðurinn komst heill á húfi út úr húsinu.

Þegar slökkvilið bar að garði steig þykktur, svartur reykur upp frá húsinu. Ákveðið var að rífa þakið af húsinu  til að koma í veg fyrir að eldurinn myndi berast milli rýmanna eftir þakplötunum og telur slökkviliðsstjóri að tekist hafi að afstýra miklu tjóni með þeirri leið.

Bílarnir betri en nýir

Ákveðið var að brjóta upp hurð á geymsluhúsnæði Jóns og renna bílunum út. Þegar aka átti fjórða bílnum út gekk það erfiðlega þar sem stýrislæsing var á bílnum. Jón hafði á þessari stundu verið vakinn og ók hann bílnum sjálfur út úr húsinu eftir að hafa losað læsinguna. Eldurinn náði ekki yfir í geymslurýmið og er Jón afar feginn að bílarnir hafi ekki orðið eldinum að bráð. 

Um er að ræða fjóra breska sportbíla, tvo af gerðinni Jagúar og tvo MG. Bílarnir eru frá árunum 1952, 1954, 1960 og 1973 og hefur Jón varið um tuttugu árum í að gera þá upp. „Þeir eru allir eins og nýir, betri en nýir,“ segir Jón. „Þetta eru bara safngripir, þetta er einkasafn.“

Bílarnir hafa verið til sýnis annað slagið í gegnum tíðina, meðal annars á þjóðhátíðardegi Íslendinga. Þeir eru allir óskemmdir eftir nóttina en Jón gerir ráð fyrir að þurfa þrífa þá þar sem sót fauk á þá í nótt.

Frétt mbl.is: Eldur í verkstæði á Akureyri

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert