Menntamálaráðuneytið hefur mætt óskum stjórnenda Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA) um fundi vegna fjárhagsstöðu skólans með þögn, að sögn Sigríðar Huldar Jónsdóttur, skólameistara. Skólinn hefur ekki fengið neitt rekstrarfé frá ríkinu frá áramótum vegna 20 milljóna króna halla á rekstri síðustu ára.
Fjármálaráðuneytið stöðvaði fyrirvaralaust greiðslur á rekstrarfé til VMA um áramótin vegna uppsafnaðs halla síðustu tveggja ára. Kennarar við skólann mótmæltu stöðvuninni harðlega í ályktun sem þeir samþykktu í vikunni. Þeir segja stöðuna grafalvarlega og að skólinn sé nánast gjaldþrota.
Sigríður Huld segist ekki vilja túlka orð kennaranna um gjaldþrot skólans og þeir velji orðalagið. Hún styðji yfirlýsingu þeirra. Hún segir að laun hafi verið greidd enda fari þær greiðslur beint í gegnum ríkissjóð og leiga á húsnæðinu sömuleiðis. Rekstrarféð rennur í allan rekstur og innkaup á aðföngum og hafa skólastjórnendur neyðst til þess að semja um skuldir við fyrirtæki og birgja vegna stöðunnar.
Engin tilkynning barst frá fjármálaráðuneytinu þegar greiðslur á rekstrarfénu voru stöðvaðar um áramótin og segir Sigríður Huld að það hafi verið um mánaðamótin janúar-febrúar sem stjórnendur skólans áttuðu sig á að greiðslurnar voru hættar að berast. Þegar skólinn hafi spurst fyrir um ástæðurnar hafi þau svör fengist að hann fengi ekkert greitt á meðan hann væri í skuld við ríkissjóð.
„Þetta er mjög einkennileg stjórnsýsla,“ segir Sigríður Huld.
Síðan þá hefur skólameistarinn ítrekað óskað eftir fundum með fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytisins en fram að þessu hefur þeim óskum verið mætt með tómlæti.
„Það hefur ekki nokkur maður haft samband við mig úr ráðuneytinu þrátt fyrir ítrekaðar óskir um fund. Það er skrifstofa fjármála- og reksturs í mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem ég er búin að vera að reyna að hafa samband við og hef ekki fengið svör. Ég fæ engin viðbrögð, ég fæ bara þögn,“ segir Sigríður Huld.
Hún segist hafa hitt Illuga Gunnarsson, menntamálaráðherra, fyrir um þremur vikum og ítrekað hafi hún óskað eftir fundi. Ekkert hafi gerst eftir það samtal. Í apríl hafi komið fram í fjölmiðlum að Illugi hafi rætt við Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, um málið. Þá hafi komið fram að staðan væri óviðunandi.
„Ég veit svo ekki hvað þessari tveir ráðherrar töluðu saman um en ég hef alla vegana ekki fengið viðbrögð í kjölfarið. Menntamálaráðherra var hér á ferðinni í fyrradag. Hann sá ekki ástæðu til að hafa samband við okkur og ræða við okkur þá heldur. Þeim er fullljóst að ég hef óskað eftir fundi,“ segir Sigríður Huld og vísar til frétta af heimsókn menntamálaráðherra til Akureyrar í fyrradag
Skólameistarinn ritaði bréf til allra þingmanna kjördæmisins og fulltrúa í fjárlaga- og allsherjar- og menntamálanefndum Alþingis í apríl. Þingmenn úr öllum flokkum hafi haft samband og heimsótt skólann í kjölfarið. Sigríður Huld segist vita fyrir víst að VMA sé fjarri því eini framhaldsskólinn sem sé í þessari stöðu.
Hún bendir á að skólinn hafi áður verið í skuld við ríkissjóð án þess að gripið hafi verið til svo harðra aðgerða. Þannig hafi hann greitt upp halla ársins 2014 í fyrra. Skólinn hafi verið í mikilli fjárhagslegri klemmu síðustu ár eins og fleiri framhaldsskólar og ekki ein króna hafi farið í annað en grunnrekstur. Þannig hafi tölvukaup verið nánast engin þrátt fyrir þörf á endurnýjun.
„Við hefðum getað farið í eitthvert leikrit og látið loka rafmagninu eða eitthvað svona en þá værum við komum í ansi skrýtna stöðu og óviðunandi stöðu fyrir nemendur. Við náttúrulega látum skólastarfið ganga þrátt fyrir þessa stöðu sem við erum í,“ segir Sigríður Huld en á bilinu 1.100 – 1.200 nemendur eru við skólann og 120 starfsmenn.
Það ömurlegasta í öllu málinu telur hún vera að ekkert bréf hafi borist frá ráðuneytinu um að til stæði að stöðva greiðslur til skólans heldur hafi stjórnendur hans þurft að leita sér sjálfir upplýsinga um það.
„Mér finnst þetta náttúrulega bara ekki vinnubrögð sem eiga að vera í opinberri stjórnsýslu. Við erum öll að reyna að reka okkar stofnanir á sem hagkvæmastan hátt. Ef það er eitthvað ekki í lagi verður að upplýsa okkur með betri hætti en hefur verið gert og það verður að svara okkur og eiga samtal við okkur. Það er ekkert gaman fyrir skólann að koma fram með þessar upplýsingar og búa til óróleika hjá foreldrum og nemendum. Maður er bara rekinn í þessa stöðu því við fáum enga úrlausn eða einu sinni viðtöl við þá sem eiga að afla okkur teknanna,“ segir Sigríður Huld sem reiknast til að skólinn ætti að hafa greitt upp hallann í júní.
Fyrri fréttir mbl.is: