Fyrstu hraðhleðslustöðvarnar á Akureyri

Fyrsti bíllinn í hleðslu við Hof. Frá vinstri: Páll Erland, …
Fyrsti bíllinn í hleðslu við Hof. Frá vinstri: Páll Erland, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, Áslaug Thelma Einarsdóttir, forstöðumaður hjá ON, Guðmundur Haukur Sigurðarson, framkvæmdastjóri Vistorku, og þá fjölskyldan sem á bílinn: Óskar Þór Vilhjálmsson, Lilja Karlotta Óskarsdóttir, Minna Kristín Óskarsdóttir og Auður Thorberg Jónasdóttir. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Tvær hraðhleðslustöðvar frá Orku náttúrunnar voru teknar í notkun á Akureyri í dag þegar fyrstu rafmagnsbílunum var stungið í samband. Önnur stöðin er við menningarhúsið Hof og hin við verslunarmiðstöðina Glerártorg.

Hraðhleðslustöðvarnar eru frá Orku náttúrunnar (ON) en Vistorka er samstarfsaðili ON í verkefninu og að því koma einnig verslunarmiðstöðin Glerártorg, Akureyrarbær og menningarhúsið Hof.

Stöðin við Hof var fyrst tekin í notkun en þar var bíl hjónanna Óskars Þórs Vilhjálmssonar og Auðar Thorberg Jónasdóttur hlaðinn.

ON er dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur. Árið 2014 hófst þróunarverkefni með uppsetningu á hraðhleðslustöðvum; sex voru settar upp á höfuðborgarsvæðinu, auk þess á Selfossi, Akranesi, Reykjanesbæ og Borgarnesi. 

Á heimasíðu ON kemur fram að notkun hraðhleðslustöðvanna sé mun meiri en í flestum öðrum löndum og mun fleiri slíkar stöðvar séu á hverja 1.000 bíla en t.d. í Noregi.

Vistorka er norðlenskt umhverfisfyrirtæki sem framleiðir umhverfisvænt eldsneyti með sjálfbærri nýtingu hráefnis sem fellur til á Eyjafjarðarsvæðinu. Fyrirtækið framleiðir metan úr sorpi og lífdísil úr matarolíu, sem annars færi til spillis. Með samstarfinu við ON hefur fyrirtækið nú einnig haslað sér völl á sviði rafvæðingar samgangna. Vistorka er dótturfyrirtæki Norðurorku, orku- og veitufyrirtækis Akureyrarbæjar og fleiri sveitarfélaga við Eyjafjörð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert