Sama farþegaþotan biluð aftur

Boeing 767-farþegaþotan.
Boeing 767-farþegaþotan. mbl.is/Árni Sæberg

Farþegaþota Icelandair af gerðinni Boeing 767 er föst í Amsterdam í Hollandi eftir að bilun kom upp í rafeindakerfi hennar. Þotan átti að leggja af stað frá Schiphol-flugvelli í dag klukkan tvö að staðartíma. 

Fyrir flugtak kom bilunin í ljós og var gerð tilraun til þess að gera við hana. Þegar talið var að komist hefði verið fyrir bilunina var aftur ætlunin að fara í loftið en þá kom í ljós að bilunin var enn til staðar og varð þá ekkert af brottför að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair. Ekki er ljóst hvenær farþegarnir komast aftur í loftið.

Um er að ræða sömu þotu og bilaði skömmu eftir flugtak í Boston í Bandaríkjunum fyrr í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert