Gæti legið fiskur undir steini

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir mikilvægt að fá fram í dagsljósið upplýsingar sem umboðsmaður Alþingis hefur undir höndum og varða þátt þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupunum á hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands 2003.

Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun sagðist hann hafa haft efasemdir um að bankinn hefði verið fenginn til þess að leppa fyrirframákveðna niðurstöðu.

S-hópurinn svonefndi keypti kjölfestuhlut í Búnaðarbankanum í janúar 2003. Þýski bankinn var þá sagður einn af kaupendunum en efasemdir hafa lengi verið uppi um hvort þáttur bankans í kaupunum hafi í raun verið sá sem hann sjálfur kynnti.

Árni Páll sagði á fundinum í morgun að það hefði legið í augum uppi að bankinn var ekki af þeirri stærð að trúverðugt væri að hann gæti fjárfest með þessum hætti í óskráðu hlutafélagi á Íslandi. Það væri umhugsunarefni að átta sig á því hvernig bankinn hefði verið fenginn til verksins – hvort þar gæti legið fiskur undir steini.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, sagði á fundinum í morgun að Alþingi ætti að skipa rannsóknarnefnd til þess að kalla fram nýjar upplýsingar um aðkomu þýska bankans að kaupunum, ef áhugi væri fyrir hendi. Slíkar upplýsingar gætu haft þýðingu um réttmæti þeirra upplýsinga sem stjórnvöld byggðu á þegar hluturinn í Búnaðarbankanum var seldur og hvort skilyrði sem fram komu í kaupsamningi hafi verið uppfyllt.

Árni Páll sagði jafnframt eðlilegt að rannsaka ekki einungis þennan þátt einkavæðingarinnar, heldur alla þá þætti sem eftir standa. Eins og kunnugt er samþykkti Alþingi í nóvember 2012 þingsályktunartillögu þess efnis að skipa skuli þriggja manna rannsóknarnefnd sem rannsaki einkavæðingu og sölu hlutabréfa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbankanum og Búnaðarbanka Íslands á árunum 1998 til 2003.

Fréttir mbl.is:

„Hvenær er nóg nóg?“

Nýj­ar upp­lýs­ing­ar um þátt bank­ans

Þátt­taka bank­ans vek­ur spurn­ing­ar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert