Síbrotamaður í gæsluvarðhald

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni sem grunaður er um að hafa framið yfir 10 brot, þar á meðal þjófnað, nytjastuld og innbrot.

Maðurinn hefur áður hlotið dóma og setið inni vegna þeirra. Var hann handtekinn laugardaginn 21. maí sl. eftir að hafa brotist inn og stolið, í félagi við annan mann, tveimur Apple iMac-tölvum. Þegar maðurinn var handtekinn var hann rænulaus vegna vímuefnaneyslu. Hann hefur viðurkennt fyrir lögreglu að hafa verið í neyslu og misst tökin.

Er hann sterklega grunaður um að hafa stolið bifreiðum, brotist inn í hús auk umferðarlagabrots þegar hann var stöðvaður undir áhrifum amfetamíns og tetrahýdrókannabínól-efna.

Er það mat lögreglunnar að um sé að ræða afbrotahrinu sem nauðsynlegt sé fyrir lögreglu að stöðva og reyna að ljúka málum mannsins. Brotaferill hans hafi verið samfelldur frá því að hann lauk fyrri afplánun. Er því talið að yfirgnæfandi líkur séu á því að hann haldi áfram sinni brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna og var því óskað eftir gæsluvarðhaldi yfir manninum. 

Hinn staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurður gildir til 19. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert