Vanhugsað að halda kosningar í haust

Silja Dögg Gunnarsdóttir, til vinstri, og Unnur Brá Konráðsdóttir.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, til vinstri, og Unnur Brá Konráðsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði á þingi í dag að það hefði verið vanhugsað að samþykkja að halda þingkosningar í haust. Árangur ríkisstjórnarinnar á undanförnum þremur árum hafi verið einstakur og því yrði að gefa henni tíma og næði til þess að klára mikilvæg verkefni.

Silja Dögg kvaddi sér hljóðs um störf þingsins og sagðist vilja að ríkisstjórninn fengi að klára þetta kjörtímabil og að kosið yrði næsta vor. Til marks um árangur ríkisstjórnarinnar benti hún meðal annars á að spáð væri samfelldum hagvexti næstu ár, laun hefðu hækkað og verðbólga væri lág.

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, sagði áhugavert að heyra í einstökum þingmönnum Framsóknarflokksins og ekki síst Silju Dögg. „Ég velti því fyrir mér hvort hún hafi komið þeim ábendingum á framfæri til forsætisráðherra um að svo sé,“ sagði Svandís.

Forsætisráðherra hefði ásamt fjármálaráðherra kynnt áformin um að halda kosningar í haust að eigin frumkvæði. Núna færi að nálgast kosningar sem allir væru sammála um að væru á næsta leiti „nema nokkrar raddir út í bæ og einstakir framsóknarþingmenn“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert