Frumvarp gegn skattsvikum í lágskattaríkjum

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um aðgerðir stjórnvalda til að sporna við skattsvikum vegna eignarhalds í lágskattaríkjum. Fram kemur í fréttatilkynningu að frumvarpið feli í sér ýmsar breytingar á skatta- og tollalögum en tilefni þess séu „nýlegar upplýsingar um eignir Íslendinga í skattaskjólum og möguleg undanskot frá skatti sem kalla á tafarlaus og afdráttarlaus viðbrögð af hálfu íslenskra stjórnvalda.“

Meðal þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu eru takmörkun á tapsfrádrætti félaga í lágskattaríki, takmörkun á samruna og skiptingu yfir landamæri, verulegar takmarkanir á flutningi lögheimilis eða eigna til ríkja sem teljast lágskattaríki og endurskoðun á CFC-ákvæðinu um skattlagningu aðila sem eiga beina eða óbeina eignaraðild að félögum, sjóðum eða stofnunum með heimilisfesti í lágskattaríkjum í átt til frekari skýringar.

Enn fremur endurskoðun á upplýsingaskyldu fjármálastofnana og lögmanna, heimild til endurákvörðunar skatts verði lengd úr sex árum í tíu ár vegna tekna og eigna í lágskattaríkjum sem ekki hefur verið gerð fullnægjandi grein fyrir í skattskilum, fyrningartími sakar verði lengdur úr sex árum í tíu ár vegna tekna í lágskattaríkjum, aðgengi innheimtumanna að upplýsingum um eignastöðu gjaldenda verði aukið, áhættustjórnun verði efld og greiningarvinna aukin og viðurlög vegna rangrar upplýsingagjafar við innflutning hert.

Þá hefur fjármála- og efnahagsráðherra skipað starfshóp til að gera tillögur að breytingum á lögum, reglugerðum og verklagsreglum sem saman munu mynda frekari aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda gegn skattaundanskotum og nýtingu skattaskjóla almennt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert