Lagaði borðið upp á eigin spýtur

Andri Brekkan Hlífarsson, nemandi í sjötta bekk í Seljaskóla í …
Andri Brekkan Hlífarsson, nemandi í sjötta bekk í Seljaskóla í Reykjavík, og borðið góða. Ljósmynd/Dröfn Vilhjálmsdóttir

Bókasafnsfræðingurinn Dröfn Vilhjálmsdóttir trúði varla sínum eigin augum í dag þegar nemandi Seljaskóla í Reykjavík, þar sem hún starfar, rogaðist með fallegt borð inn á skólasafnið. Í síðustu viku fékk hann leyfi til að laga ónýtt borð sem átti að henda og kom árangurinn kennurum og samnemendum hans á óvart.

Nemendinn heitir Andri Brekkan Hlífarsson og er í sjötta bekk í skólanum. Hann kemur reglulega á safnið og er Dröfn oft innan handar, til dæmis þegar skreyta á safnið. „Þetta er öflugur strákur og kemur oft að hjálpa á safninu. Hann  sá borðið hjá mér sem var eiginlega orðið ónýtt. Það var búið að brotna, fæturnir voru að liðast undan því og ég ætlaði að henda því,“ segir Dröfn í samtali við mbl.is.

Andri spurði hvort hann mætti taka borðið og laga það og gaf Dröfn leyfi fyrir því. Daginn eftir kemur hann með teikningu og segist vera búinn að hanna borðið upp á nýtt. „Þetta hljómaði allt mjög vel en ég hafði ekki mikla trú á þessu,“ viðurkennir Dröfn. Hún ræddi við smíðakennarann og spurði hvort hann væri að aðstoða Andra við verkið. Í ljós kom að hann þurfti lítið að aðstoða drenginn, sagaði aðeins nokkrar spýtur fyrir hann.

Dröfn bjóst ekki við því að fá borðið fyrr en í haust en skólaárið er senn á enda. „Svo bar hann þetta upp hingað áðan, búinn að þessu,“ segir hún. Andri sagaði gat í borðið, setti nýjan við utan á það og brenndi til að fá fallega áferð. Hún er afar ánægð með afraksturinn og þá sérstaklega hólfið í borðinu sem nýtist vel fyrir bækur. „Þetta er svo sniðugt, þetta er einmitt það sem mig vantaði,“ segir Dröfn.

„Smíðakennarinn og bekkjarkennarinn gáfu honum þetta svigrúm og hann var mjög spenntur að vinna þetta verkefni. Hann nýtur sín svo vel þarna.  Ég er alveg viss um að önnur skólasöfn væru til í að eiga svona borð,“ segir hún að lokum.

Ljósmynd/Dröfn Vilhjálmsdóttir
Svona leit borðið út áður en Andri lagaði það.
Svona leit borðið út áður en Andri lagaði það.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert