Laugardalslaug opnuð aftur

Laugardalslaug var lokuð í tvo daga vegna framkvæmda.
Laugardalslaug var lokuð í tvo daga vegna framkvæmda. mbl.is/Eva Björk

Laugardalslaug opnaði í morgun eftir að hafa verið lokuð í tvo daga vegna framkvæmda. Logi Sigurfinnsson, forstöðumaður Laugardalslaugar, segir að gert hafi verið við vatnslögn í aðalvatnslögn í kjallara gömlu laugarinnar. 

Búist er við miklum fjölda sundgesta í Laugardalslaug í sumar. Að jafnaði hafa á milli 60 og 100 þúsund manns sótt laugina á mánuði yfir júní, júlí og ágúst. Segir Logi að fjöldametið hafi fallið í júlí 2010 þegar um 103 þúsund manns sóttu laugina á einum mánuði. Skýringar þess segir hann vera gott veður í mánuðinum en þar að auki var mikil aðsókn í sundlaugarnar eftir efnahagshrunið 2008.

Kemur örsjaldan fyrir að skáparnir anni ekki eftirspurn

„Lögnin var orðin gömul og það var kominn tími á að laga hana,“ segir Logi um framkvæmdirnar og bætir við að auk þess hafi pottarnir verið tæmdir, allt laugarsvæðið þrifið hátt og lágt og málað. Hann segir að alltaf sé reynt að hátta málum þannig að sem minnst skerðing verði á afgreiðslutíma laugarinnar. 

„Við vorum heppin að það hékk þurrt allan gærdaginn. Málararnir náðu að klára í gær og eru pottarnir að tínast inn einn af öðrum,“ segir hann en aðeins þrír pottar eru enn lokaðir sem detta inn um hádegisbilið að sögn Loga.

Logi Sigurfinnsson, forstöðumaður Laugardalslaugar, segir tíma hafa verið kominn á …
Logi Sigurfinnsson, forstöðumaður Laugardalslaugar, segir tíma hafa verið kominn á endurbætur. mbl.is/Golli

Átta hundruð læstir skápar eru í klefum Laugardalslaugar og segir Logi aðspurður að það komi örsjaldan fyrir að aðsóknin sé það mikil að fólk fái ekki skáp. Þá sé fólk beðið um að bíða í smá stund. 

„Það gerist á allra bestu dögunum að einhverjir þurfi að bíða pínulítið en hringrásin virkar þannig að þetta dreifist vel yfir daginn,“ segir Logi en ferðamenn sækja meira í laugina seinni hluta dags til að nýta kvöldið eftir dagsferðir á meðan Íslendingarnir koma á daginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert